Gunnar, Halla, Sigurjón, Kristjana, Böðvar og Stefán sigruðu í spurningakeppninnni

Enginn gat svarað því hver hafi skrifað Njálu en skjaldan var komið að tómum kofanum þegar spurt var um einstaklinga úr Andabæ. Ekki var það vegna vankunnáttu sem nafn höfundar Njálu kom ekki fram í skemmtilegri spurningakeppni á gildisfundi í gærkvöldi, enginn veit hver skrifaði Njálu. Fundurinn í Hraunbyrgi var á léttu nótunum og hófst með heitri og ljúffengri kjötsúpu eftir að ljóð Arnar Arnarsonar, Hamarinn í Hafnarfirði hafði verið flutt. Gítarinn var tekinn upp úr tösku og fékk Hreiðar góðfúslegt leyfi til að slá á strengi hans og braust þá að sjálfsögðu út fagur söngur í salnum.

Kjötsúpunni var gerð góð skil.

Gildismeistari hafði undirbúið heilmikla og merkilega spurningakeppni þar sem reyndi á fjölbreytta kunnáttu gildisfélaga. Liðin voru þrjú og kepptust þau um að svara bjölluspurningum, skátaspurningum, almennum spurningum og vísbendingaspurningum. Kunnátta félaganna blómstraði hvort sem sput var út í frásagnir Gunnars á Hlíðarenda, áform Glanna glæps, nöfn á skátaskálum eða um stærsta kattadýr heims. Stigin hlóðust á liðin og svo fór að eitt lið stóð uppi sem sigurvegari, 9 stigum á eftir næsta liði og 13 stigum á undan bronsliðinu. Verðlaunin var heimsfrægð á netinu og því eru lesendur beðnir að dreifa þessari sögu á Facebook og í tölvupósti um allan heim.

Nú var á ný tekið til við sönginn enda Hreiðar óstöðvandi á gítarnum. Ilmur fór að berast úr eldhúsinu og heitar kökur Kristjönu runnu ljúft niður með kaffinu. Verðlaunin fjölmörgu sem Kristjana hafði safnað hjá góðum aðilum í bænum, Veiðihorninu, Fagfólki, Nonna gull, Kailash, Lilju boutique og Kakí biðu nú þess að verða deild út til heppinna félaga. Gildismeistari náði eftir töluvert bras að draga með hjálp Excel og vinningarnir fóru í hendur ánægðra gildisfélaga. Góður gildisfundur var á enda runninn.

Ljósmyndir: Guðni Gíslason