Annáll Skátagildanna á Íslandi

Samantekt: Hörður Zóphaníasson, Hreinn Óskarsson og Jóhanna Kristinsdóttir*

Forsaga

Franch Michelsen skrifaði grein í 2. tbl. Foringjablaðsins 1950 um „Gamla skáta“ og segir þar að mikill áhugi sé ríkjandi meðal þeirra fyrir ákveðnu starfssviði og skipulegum samtökum. Þar kom einnig fram, að stjórn BÍS hafi ákveðið í tilefni af 25 ára afmæli sínu að beita sér fyrir stofnun sérstakrar deildar „eldri skáta“ innan skátahreyfingarinnar.

Í framhaldi af því boðaði stjórn BÍS til móts fyrir eldri skáta (eldri en 25 ára) að Úlfljótsvatni 15.-16. júlí 1950. Mótsnefnd skipuðu: Jakobína Magnúsdóttir, Jón Guðjónsson og Franch Michelsen, sem var formaður nefndarinnar.

Mótinu seinkaði um mánuð frá því sem áætlað var, en var haldið á Úlfljótsvatni 12.-14. ágúst. Þátttakendur voru 40.

Á mótinu flutti Franch Michelsen erindi um félagssamtök eldri skáta og starfsemi þeirra í ýmsum löndum. Hann mælti eindregið með því, að samskonar félagsskapur yrði stofnaður hér á landi. Allfjörugar umræður urðu um málið.

Jakobína Magnúsdóttir, Ásta Þorgrímsdóttir, Sveinbjörn Þorbjörnsson og Franch Michelsen voru kosin í nefnd til að vinna að stofnum félagsskapar, á svipuðum grundvelli og St. Georgsgildin í nágrannalöndunum. Franch var formaður nefndarinnar.

Nefndin hélt marga fundi og álitlegur hópur eldri skáta myndaði St. Georgsgildi Reykjavíkur.

1959

Árið 1959 fékk þetta gildi góðan gest í heimsókn, Odd Hopp, aðalframkvæmdastjóra norska skátabandalagsins, en hann var þá staddur á fyrsta Gilwellnámskeiðinu fyrir sveitarforingja hér á landi, en það var haldið á Úlfljótsvatni. Hann gaf fundarmönnum gott yfirlit yfir starfsemi St. Georgsgildanna í Noregi og sagði frá hvaða gildi starfsemi þeirra hefði fyrir skátastarfið í Noregi. Síðar varð Odd Hopp landsgildismeistari í Noregi 1979–1987.

Franch Michelsen undirbjó og stofnaði St. Georgsgildi Reykjavíkurí skátaheimilinu við Snorrabraut í mars 1959. Fyrsti gildismeistari þess var kosinn Daníel Gíslason. Stofnfélagar voru 16.

1960

St. Georgsgildið á Akureyri var stofnað 1. nóvember 1960 og hefur það verið starfandi óslitið síðan.

1963

Síðla vetrar 1963 sendu þeir Franch Michelsen og Hans Jörgensson bréf til þeirra staða í nágrenni Reykjavíkur, sem þeir vissu að hópa af eldri skátum væri að finna. Efni þessara bréfa var að kanna hvort grundvöllur væri fyrir stofnun St. Georgsgildis á staðnum. Í framhaldi af þessum bréfaskriftum komu þeir til fundar við eldri skáta í Hafnarfirði, Njarðvík og Keflavík og reifuðu málið.

Í kjölfar þess voru stofnuð St. Georgsgildi á öllum þessum stöðum.

 • Georgsgildið í Hafnarfirði var stofnað 22. maí.
 • Georgsgildið í Keflavík stofnað 27. maí.

 

Bandalag íslenskra St. Georgsskáta, BÍG, stofnað 2. júní í Skíðahótelinu við Akureyri.

Fundinn setti Dúi Björnsson, Akureyri, fundarstjóri var Sigurður Guðlaugsson, Akureyri og fundarritari Sigurbjörn Þórarinsson.

Fyrsta stjórn BÍG. Dúi Björnsson, Akureyri, var kosinn landsgildismeistari og með honum í stjórn Sigurður Guðlaugsson, Allý Þórólfsson og Kristján Hallgrímsson. Samkvæmt lögum skyldi BÍS tilnefna fimmta manninn í stjórnina. Var Franch Michelsen, Reykjavík, tilnefndur í stjórnina af BÍS.

Í varastjórn voru kjörin Stefán B. Árnason og Karitas Melstað. Félagar úr St. Georgsgildunum á Akureyri og í Reykjavík sátu þetta stofnþing.

Lögin sem voru samþykkt á þessu stofnþingi voru svohljóðandi:

 1. Landssamband félaga eldri skáta og velunnara skáta skal heita Bandalag íslenskra St. Georgsskáta og skammstafað BÍG.
 2. Rétt til inngöngu í bandalagið hafa þau félög, sem starfa í anda St.Georgsskáta.
 3. Stjórn BÍG skal skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum. Þeir geta verið búsettir í hvaða borg eða kaupstað sem er á landinu, þó þannig að a.m.k. fjórir séu úr sama stað eða nágrenni. En einn af aðalmönnum skal skipaður af BÍS og skal hann hafa heimilisfang í Reykjavík eða nágrenni.
 4. Einnig skal kjósa tvo endurskoðendur.
 5. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðra sameiginlega og síðan varamenn og endurskoðendur. Kosið skal til tveggja ára í senn.
 6. Fimm manna uppstillingarnefnd skal kosin samkvæmt uppástungu fundarmanna og leggur hún fram tillögur um kosningu embættismanna þá er um getur í 4. grein. Einnig er félagsmönnum frjálst að koma með uppástungu. Kosning skal vera skrifleg.
 7. Stjórnin skiptir með sér verkum: ritari, gjaldkeri, erlendur bréfritari o. s. frv.
 8. Bandalagsþing skal halda annað hvert ár.
 9. Rétt til þingsetu hafa allir löglegir félagar og jafnframt þingstörfum skal miða þingin við að þau séu einnig kynningarmót og mótin standi einn til tvo daga.
 10. Hvert félaga greiðir kr. 250,00 fyrir 20 fyrstu félagsmenn eða færri og kr. 10.00 á hvern félaga þar fram yfir. Greiðsla skal vera fyrirfram fyrir hvert ár og fara fram á þinginu.
 11. Félögin leggi fram á þinginu starfsskýrslu og félagatölu.
 12. Lögin skulu endurskoðuð árlega og lagabreytingar lagðar fram á þingum, ef einhverjar verða.
 13. Meirihluti atkvæða ræður samþykktum þingsins.
 14. Lögin öðlast þegar gildi 2. júní 1963.

 

1965

Laugardaginn 22. maí var 2. landsgildisþingið sett í Skátaheimilinu í Reykjavík. Hans Jörgensson gildismeistari St. Georgsgildisins í Reykjavík bauð fundarmenn velkomna og setti þingið með hátíðlegri áthöfn.  Fundarmenn risu úr sætum og fóru með skátalögin og heiti Georgsskáta. Um leið voru tendruð kertaljós, tíu fyrir skátalögin og þrjú fyrir heitið.

Þá tók skátahöfðingi Jónas B. Jónsson til máls og flutti ávarp. Hann mælti m. a. á þessa leið „að margt mætti gera, ef fólk væri samtaka og hugur fylgdi máli og sagðist vita að við héldum áfram að starfa og koma saman vegna þess að okkur þætti vænt um skátana og skátastarfið og vildum rétta þeim hjálparhönd“. Óskaði síðan BÍG alls góðs.

Síðan tók landsgildismeistari Dúi Björnsson við stjórn fundarins. Fundarritari var Sólveig Helgadóttir.

Fundinn sátu St. Georgsskátar frá Akureyri, Hafnarfirði, Keflavík og Reykjavík. Samþykkt var að leita eftir því að BÍG fengi eina til tvær síður í Foringjanum.

Eiríkur Jóhannesson, Hafnarfirði, var kosinn landsgildismeistari og með honum í stjórn Kristinn Sigurðsson, Elsa Kristinsdóttir og Sigurlaug Arnórsdóttir, öll úr Hafnarfirði. Í varastjórn voru kosnir Egill Strange og Svavar Jóhannesson, báðir úr Hafnarfirði. Franch Michelsen var tilnefndur í stjórnina af BÍS.

Að þinginu loknu var haldin kvöldvaka í Skátaheimilinu og stjórnaði Hans Jörgensson henni. Þar var mikið sungið, leikþættir fluttir og gamansögur sagðar. Um 60 félagar sóttu kvöldvökuna.

Á  fundi landsgildisstjórnar 2. júní var m. a. rætt um að gildin kæmu í stað foreldraráðs í skátafélögunum og hjálpuðu til við skátastarfið.

St. Georgsgildið í Vestmannaeyjum var stofnað 2. október 1965 og voru stofnendur rúmlega 60. Gildismeistari var kjörinn sr. Jóhann Hlíðar.

1966

Á fundi landsgildisstjórnar 10. júní var rætt um að senda Jennu Jónsdóttur á þing St.Georgsgilda í Danmörku, en hún ætlaði á þjóðdansamót þar í landi. Einnig var ákveðið á þessum sama fundi að taka upp búning fyrir St.Georgsgildin, brúngrænar peysur. Panta átti nokkrar peysur og sýna þær á fundi í St. Georgs-gildinu í Hafnarfirði og senda síðan nokkrar til gildanna úti á landi.

Á fundi landsgildisstjórnar 6. október kemur fram að ágóði af tesölu St. Georgsskáta á Landsmóti skáta 1966 á Hreðavatni hafi orðið 5.020 krónur. Landsgildið sá um móttöku gesta á Landsmótinu.

Á fundinum var einnig lagt fram bréf frá landsgildismeistara Noregs um að St. Georgsgildin í Noregi, Danmörku, Íslandi og Svíþjóð hafi fund saman, þar sem rætt yrði um nánara samband milli gildanna og skáta á ýmsum stöðum.

Landsgildismeistari, Eiríkur Jóhannesson, skýrði frá tillögu frá IFOFSAG um að halda hátíðlega 24. eða 25. október ár hvert, en 25. október er stofndagur IFOFSAG og Sameinuðu þjóðanna.

Á þessu ári reisir St. Georgsgildið í Hafnarfirði skála við Hvaleyrarvatn. Skálinn var síðar vígður 25. júní 1968 og nefndur Skátalundur.

1967

Á fundi landsgildisstjórnar 26. apríl er sagt frá því að minningarspjöld St. Georgsskáta séu tilbúin til sölu.

Laugardaginn 20. maí er 3. þing Bandalags íslenskra St. Georgsskáta haldið í skátaskálanum Hraunbyrgi í Hafnarfirði. Þar voru mættir fulltrúar frá St. Georgsgildunum á Akureyri, Hafnarfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum og Reykjavík. Auk þess var áheyrnarfulltrúi frá Selfossi.

Landsgildismeistari bauð Eigil Mauritzen landsgildismeistara í Danmörku sérstaklega velkominn á þingið. Síðan tók Eigill Mauritzen til máls og flutti fróðlegt erindi um dönsku St. Georgsgildin. Hann afhenti í lok þingsins gildismerki á borða á fæti, gjöf frá landsgildinu í Danmörku.

Hans Jörgensson var kosinn fundarstjóri þingsins og Kristinn Sigurðsson fundarritari.

Á þinginu voru mættir félagar úr gildunum á Akureyri, Reykjavík, Keflavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Fram kom að í gildinu í Vestamannaeyjum hefur lögunum verið breytt þannig, að sér foringi er fyrir karla og sér fyrir konur “og hefur gefist vel”.

Nokkrar lagabreytingar eru gerðar á þinginu m.a. þær, að skammstöfun Bandalags íslenskra St. Georgsskáta skyldi verða BÍSG í stað BÍG, og numið var úr lögunum að fulltrúi BÍS í Landsgildisstjórninni skyldi vera úr Reykjavík.

Landsgildisstjórnin var öll endurkjörin samkvæmt tillögu uppstillingarnefndar svo og varastjórn.

1968

Þetta ár voru þrjú ný gildi stofnuð í Reykjavík:

Ernir í Bústaða- og Grensássókn hinn 1. febrúar, gildismeistari Ingvi Viktorsson, stofnendur 15 – Dalbúar fyrir Kleppsholt og Laugarnes hinn 22. febr (?) gildismeistari Einar Sigurðsson, stofnendur 20 og Vestri í Vesturbæ hinn 23. apríl, gildismeistari Hrefna Tynes, stofnendur 15. Þessi gildi voru vígð á St. Georgsdaginn 23. apríl á Bessastöðum að viðstöddum forseta Íslands Ásgeiri Ásgeirssyni og skátahöfðingja Jónasi B. Jónssyni.

St. Georgsboðskapur Norðurlandanna var að þessu sinni saminn af forseta Íslands, herra Ásgeiri Ásgeirssyni.

Borgargildið, samstarfsnefnd gildanna í Reykjavík var stofnað 13. maí 1968.

Borgargildismeistari verður Þórir Kr. Þórðarson prófessor, varagildismeistari Jón E. Ragnarsson héraðsdómslögmaður og Franch Michelsen ritari Borgargildisins.

Á fundi landsgildisstjórnar 11. júlí segir Franch Michelsen frá því að hann hefði komið af stað blaði, Bálinu, sem fylgja á Foringjanum, þrisvar sinnum á ári, fjórar síður í miðju blaðinu. Á sama fundi er ákveðið að bjóðast til að halda Norðurlandaþing gildanna hér á landi 1970.

Fyrsta tölublað Bálsins kom út, fjórar síður og var fylgirit Foringjans. Tvö tbl. komu út á árinu og var það síðara 8 bls. Ritstjóri Bálsins var Franch Michelsen.

1969

Stjórn St. Georgsgildisins í Hafnarfirði ákveður að safna frímerkjum hjá félagsmönnum og verja andvirði sölunnar í Eþiópiusöfnuna. Í framhaldi af því ákveður landsgildisstjórn að safna frímerkjum og peningum hjá öllum gildunum til kaupa á teppum til Eþiópíusöfnunar gildanna á hinum Norðurlöndunum.

Hinn 16. mars tekur landsgildismeistari Eiríkur Jóhanneson þátt í fundi norrænu landsgildismeistaranna í Frederikstad í Noregi. Hann var haldinn undir stjórn Tore Höye og var fyrsti landsgildismeistarafundurinn, þar sem mættir voru fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum. Á fundinum var samþykkt að næsta gildisþing Norðurlandanna yrði haldið á Íslandi næsta ár.

Fjórða þing Bandalags íslenskra St. Georgsskáta var haldið 31.maí í Keflavik. Landsgildismeistari Eiríkur Jóhannesson setti þingið og tilnefndi Þóri Kr. Þórðarson sem fundarstjóra og Nönnu Kaaber fundarritara.

Hans Jörgensson var kjörinn landsgildismeistari og með honum í stjórn Elín Jósefsdóttir Hafnarfirði, Björn Stefánsson Keflavík og Aðalsteinn Júlíusson Reykjavík. Varamenn í stjórn voru kosnir Edward Frederiksen Reykjavík og Dúi Björnsson, Akureyri. Franch Michelsen var tilnefndur í stjórnina af BÍS.

Eftir þingið var farið í ökuferð um Nes að Garðskaga og Hvalsnesi undir leiðsögn Helga S. Jónssonar. Í Hvalsneskirkju var stutt helgistund eftir að saga kirkjunnar hafði verið rakin í stórum dráttum.

Á fundi landsgildisstjórnar 4. júní var Edward Frederikssen skipaður fulltrúi Íslands í Eþíópíunefnd Norðurlanda og jafnframt farið þess á leit við hann að sitja fundi landsgildisstjórnar.

Bálið 2. árgangur kom út sem fylgirit Foringjans, fjögur tbl. samtals 16 bls. Franch Michelsen var ritstjóri og Dúi Björnsson meðritstjóri.

Þetta ár, 26. október, var stofnað St. Georgsgildi á Selfossi. Friðrik Friðriksson var kosinn gildismeistari. Stofnfélagar 12-15.

1970

Norrænt gildisþing haldið í fyrsta skipti á Íslandi. Þingið var haldið í Reykjavík dagana 27. – 31. júlí.

Hans Jörgensson landsgildismeistari setti þingið í Norræna húsinu og skipaði Franch Michelsen fundarstjóra. Fyrsti og fimmti dagur þingsins fóru í fundarhöld en farið var í ferðalög hina dagana.

Þriðjudaginn 28. júlí var farið til Hafnarfjarðar, bærinn skoðaður, hádegisverður snæddur. Þar flutti Kristján Bersi Ólafsson erindi um siði, trú og hjátrú á Íslandi á 19. og 20. öld. Frá Hafnarfirði var ekið til Krýsuvíkur og þaðan til Grindavíkur, um Reykjanesið og til Keflavíkur. Kvöldverður var snæddur í Félagsheimilinu Stapa. Þar var flutt erindi um fiskveiðar og verslun á Íslandi fyrr og nú. Þar var einnig einsöngur, almennur söngur og skemmtiatriði. Til Reykjavíkur  var komið um miðnætti. Um 140 tóku þátt í ferðinni og um 160 sátu kvöldvökuna.

Næsta dag var Borgarfjarðarferð. Borðað í Borgarnesi, Borg á Mýrum skoðuð og kynnt, þaðan farið á Landsmót skáta á Hreðavatni. Þar var tekið á móti hópnum með viðhöfn og veitingar bornar fram í stóru tjaldi. Þá var haldið í Reykholtsdalinn, Deildartunguhver skoðaður, Reykholt skoðað undir leiðsögn séra Einars Guðnasonar og þar var snætt nesti.. Á heimleiðinni var komið við í Hvalstöðinni og horft á hvalskurð, Komið til Reykjavíkur um miðnætti.

Fimmtudaginn 30. júlí var ekið til Þingvalla, stansað á Lögbergi, þar sem séra Eiríkur Eiríksson lýsti helgi staðarins og sagði sögu hans. Matast í Hótel Valhöll í boði félagsmálaráðherra, íslenskur hátíðamatur á borðum svo sem hangikjöt.

Þaðan var haldið áfram austur, hátíðleg stund í Skálholtskirkju, Gullfoss skoðaður, farið að Hekluhrauni og náð í volga hraunsteina innan við hraunjaðarinn. Þar var borðað nesti. Kvöldverður á Hótel Selfossi þar sem nýveiddur lax var á borðum og skyr í eftirmat. Þar var haldið erindi um landbúnað á Íslandi nú til dags, sungið og skemmtiatriði flutt. Veisluna sátu yfir 170 manns. Komið við í Eden í Hveragerði og til Reykjavíkur um miðnættið.

Föstudaginn 31. júlí var þinginu slitið að Bessastöðum að viðstöddum forsetahjónunum. Eftir þingslitin var öllum boðið til forsetabústaðarins og þar var dvalist um klukkustund í boði forsetahjónanna.

Auk íslensku þátttakendanna sóttu þingið 27 frá Noregi, 30 frá Danmörku, 38 frá Svíþjóð og 15 frá Finnlandi, samtals 110 gildisfélagar.

Eftir þingið fór hópur þátttakenda til Akureyrar, en St. Georgsgildið á Akureyri undirbjó móttöku þeirra á Akureyri og ferð í Mývatnssveit. Þótti það takast afburða vel.

1971

Fimmta landsþing St. Georgsskáta var haldið í Oddfellowhúsinu í Reykjavík 20. maí, uppstigningardag. Hans Jörgensson landsgildismeistari setti þingið og skipaði Albert Kristinsson fundarstjóra en Ragnheiði Kristinsdóttur fundarritara, bæði úr Hafnarfirði.

Á þessu þingi var lesið bréf þess efnis, að Borgargildið hefði verið lagt niður. Á landsgildisþinginu var ekki tilnefndur maður frá BÍS eins og verið hafði frá byrjun, heldur kjörinn 5. maður úr röðum gildisfélaga. Franch Michelsen voru færðar þakkir en hann hafði verið fulltrúi BÍS. Tvær uppástungur komu fram um landsgildismeistara og var Franch Michelsen kosinn landsgildismeistari með 13 atkvæðum. Hrefna Tynes fékk 12 atkvæði. Aðrir í landgildisstjórn voru kjörnir Aðalsteinn Júlíusson, Björn Stefánsson og Þorsteinn Magnússon. Varamenn í landsgildisstjórn voru kosin Guðmundur Ólafsson og Elsa Kristinsdóttir.

Að þinginu loknu, eftir kvöldmat, var ekið til Hafnarfjarðar og upp að Hvaleyrarvatni í Skátalund, skála Hafnarfjarðargildisins þar. Í Skátalundi var dvalið góða stund og var þar boðið upp á öl og meðlæti. Svo var haldið aftur til Reykjavíkur í safnaðarheimili Langholtssóknar. Þar hófst svo kvöldvaka með spjalli, söng og gamanmálum, kaffi og indælis kökum.

Á fundi landsgildisstjórnar 10. júní var rætt um fyrirhugað norrænt gildisþing í Noregi og Þorsteinn Magnússon, Jónas Sigurður Jónsson og Albert Kristinsson skipaðir í nefnd til að undirbúa ferð þangað.

Á þessum fundi var líka rætt um að hætta að gefa Bálið út sem hluta af Foringjanum en gera það að sérstöku blaði sem kæmi út þrisvar til fjórum sinnum á ári, fjórar síður hverju sinni, en væri samt áfram innan í Foringjanum sem sjálfstætt blað. Hrefna Tynes tók að sér að athuga með ritstjórn.

Bálið 3. árgangur kom út sem fylgirit Foringjans, tvö tbl. Ritstjóri var Franch Michelsen.

Akranesgildið í Reykjavík var stofnað 15. október (?) á heimili Páls Gíslasonar, skátahöfðingja, Rauðagerði 10. Gildismeistari var kjörinn Sigurður S. Sigurðsson.

1972

Tuttugu og fjórir íslenskir gildisfélagar sóttu norræna gildisþingið í Noregi og þótti sú ferð takast mjög vel.

St. Georg kom út, fjórar síður í dagblaðsformi.

Allmiklar umræður eru um hvort Landsgildið eigi að gerast formlegur aðili að Bandalagi íslenskra skáta. Hrefna Tynes skýrði frá fundi landsgildismeistara Norðurlanda sem haldinn var í Noregi.

Þar var reifuð hugmyndina um að íslenska landsgildið gerðist aðili að BÍS. Allir fundarmenn voru andvígir þeirri hugmynd, en vildu eiga vinsamlegt og gott samstarf við skátana og skátahreyfinguna. Sama var uppi á teningnum, þegar þetta sama mál kom til umræðu í stjórn IF0FSAG.

Á fundi landsgildisstjórnar 30. október 1972  er samþykkt í tilefni af 60 ára afmæli skátastarfs á Íslandi að færa BÍS 10.000 króna gjöf auk 1.000 króna framlagi frá hverju gildi. Peningum þessum skyldi varið til söfnunar gamalla skátaminja  og stofnunar skátaminjasafns.

1973

Landsgildisstjórn boðaði til fundar með gildismeisturum, fulltrúum frá Vestmannaeyjum og Bandalagi íslenskra skáta 5. febrúar. Tilefni fundarins var að fljótlega eftir eldgosið þar fóru landsgildinu að berast frá  peningagjafir frá Norðurlöndunum  og tilboð um aðstoð við Vestmannaeyjabúa.

Fundurinn samþykkti tillögu frá Bandalagi íslenskra skáta um stofnun Faxasjóðs, en í hann skyldu renna þeir fjármunir sem söfnuðust á vegum gildanna og skátanna. Markmið sjóðsins skyldu vera að styrkja og efla starfsemi skátafélagsins Faxa í Vestmannaeyjum.

Stofnaðilar voru: Landssamband íslenskra St. Georgsgilda, Bandalag íslenskra skáta, Útlagar (flokkur Vestmannaeyjaskáta í Reykjavík) , Skátafélagið Faxi, Skátasamband Reykjavíkur og Reykjavíkurgildin.

Í stjórn voru kosin: Arnbjörn Kristinsson (BÍS), Björn Stefánsson (landsgildið), Erla Gunnarsdóttir (skátasambandið), Jónas Sigurður Jónsson (Reykjavíkurgildin), Friðrik Haraldsson (Útlagar) og Ólafur Magnússon (Faxi).

Á sama fundi landsgildisstjórnar voru þeir Þorsteinn Magnússon Reykjavík, Sigurður Jónas Sigurðsson Reykjavík og Albert Kristinsson Hafnarfirði kosnir í nefnd til undirbúnings ferð á Norræna gildaþingið í Finnlandi 1974.

Eiríkur Jóhannesson var gerður að heiðursfélaga í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði á 10 ára afmæli þess hinn 23. maí og er sá fyrsti sem hlýtur þann heiður.

Sjötta landsþing BÍSG var haldið á Akureyri laugardaginn 2. júní á 10 ára afmælisdegi bandalagsins. Dúi Björnsson bauð menn velkomna til Akureyrar en síðan setti landsgildismeistari Franch Michelsen þingið og bað Tryggva Þorsteinsson að vera fundarstjóra og Jóhönnu Kristinsdóttur fundarritara.

Á þessu þingi var samþykkt að breyta nafni samtakanna, sem skyldu nú heita St. Georgsgildi Íslands, nefnt landsgildið.

Franch Michelsen var kjörinn landsgildismeistari og með honum í stjórn Björn Stefánsson Keflavík, Þorsteinn Magnússon Reykjavík, Guðfinna Svavarsdóttir Reykjavík og Sigurlaug Arnórsdóttir Hafnarfirði.

Um kvöldið var haldin kvöldvaka í Hvammi undir stjórn Dúa Björnssonar og stóð hún til miðnættis og þótti takast hið besta.

1974

St. Georgsdagurinn haldinn 23. apríl í Bessastaðakirkju. Forseti Íslands, herra Kristján Eldjárn, hafði samið boðskapinn að þessu sinni að beiðni landsgildisstjórnar.

Gildin sáu um sögusýningu á landsmóti skáta á Úlfljótsvatni. Franch Michelsen var sæmdur gullbjálkanum á 60 ár afmæli hans. Skátahöfðingi Páll Gíslason mætti á fund landsgildisstjórnar 3. október, en hann átti 50 ára afmæli þann dag.  Var hann sæmdur gullbjálkanum við þetta tækifæri. Á fundinum kom fram að alheimsmót St. Georgsgilda yrði haldið í Álaborg í Danmörku næsta sumar og voru Jónas Sigurður Jónsson, Björn Stefánsson og Einvarður Jósefsson kjörnir í undirbúningsnefnd fyrir ferð þangað. Síðar kom í ljós, að ekki var áhugi hjá gildunum á ferðinni.

Faxasjóður afhenti Skátafélaginu Faxa skátaheimili með húsgögnum. Húsið kostaði 4 milljónir króna. Þá hafði safnast í Faxasjóð 2.740.00 kr., en sjóðurinn hafði þá greitt 2.200.000 kr. til húsakaupanna.

Norðurlandaþing St. Georgsgildanna var haldið í Finnlandi og sóttu það 25 gildisfélagar frá Íslandi.

Bálið 4. árgangur kom út, þrjú tbl., fylgirit Skátablaðsins, samtals 16 bls., ritstjóri Eiríkur Jóhannesson.

Á stjórnarfundi landsgildisins 24. október 1974 er ritað í fundargerð:

„Fyrsta St. Georgsgildi var stofnað á Íslandi 1950 og er því 25 ára á næsta ári. Ákveðið var að kjósa nefnd til að sjá um einhver hátíðarhöld í sambandi við það. Kosin voru Sigríður Lárusdóttir formaður, Óskar Pétursson og Sigurður Ágústsson og myndu þau starfa í samráði við Franch.“

1975

Hinn 5. maí var Styrktarsjóður landsgildisins stofnaður. Styrktarsjóðnum var ætlað að afla fjár með sölu minningarkorta, auglýsinga í Bálinu, en að mestu með gjafafé frá eldri skátum og velunnurum St. Georgsgildanna. Reglur um hann voru svohljóðandi:

 1. grein: Nafn sjóðsins er Styrktarsjóður St. Georgsgilda og er í vörslu St. Georgsgildanna á Íslandi.
 2. grein: Tilgangur sjóðsins er:
 • Að veita fé til húsbygginga eða húsakaupa fyrir starfsemi gildanna og skátastarfs.
 • Að veita fé til líknarmála og hjálparstarfsemi.
 1. grein: Ef sjóðurinn og St. Georgsgildin á Íslandi hætta starfsemi sinni, skulu eignir sjóðsins renna til Bandalags íslenskra skáta.
 2. grein: Annarri og þriðju grein þessara laga má ekki breyta.
 3. grein: Stjórn St. Georgsgildanna á Íslandi skipar tvo í stjórn sjóðsins og tvo endurskoðendur til tveggja ára í senn, eftir hvert landsgildisþing. Gjaldkeri landsgildisins er sjálfkjörinn í stjórn sjóðsins og skal hann vera formaður hans.
 4. grein: Reikningar sjóðsins skulu lagðir fyrir landsgildisþing til samþykktar.

Laugardaginn 24. maí var 7. landsþing St. Georgsgildis Íslands haldið í Keflavík. Jakob Árnason gildismeistari Keflavíkurgildisins bauð gesti velkomna, landsgildis-meistari Franch Michelsen setti þingið, skipaði Lúðvík Jónsson Keflavík fundarstjóra en Jón A. Valdimarsson Keflavík fundarritara.

Samþykktar voru lagabreytingar þar á meðal að stjórn landsgildisins skyldi skipuð 7 mönnum.

Landsgildismeistari var kjörinn Hrefna Tynes og með henni í stjórn Þorsteinn Magnússon, Guðfinna Svavarsdóttir, Sigríður Axelsdóttir, Stefán Jónsson, Sigurlaug Arnórsdóttir og Björn Stefánsson.

Nokkrar umræður urðu á þinginu um stofndag St. Georgsgildis á Íslandi. Fram kom að telja beri útilegu 29 gamalla skáta að Úlfljótsvatni 12.-13. ágúst 1950 upphafið að félagi gamalla skáta, sem síðar varð að St. Georgsgildi á fundi í Oddfellowhúsinu í Reykjavík. Mönnum bar ekki saman um stofnár fyrsta St. Georgsgildisins. Hans Jörgensson taldi það vera 1959, Franch Michelsen fyrir 1959, reyndar væri rétt að miða við útileguna á Úlfljótsvatni 1950 og Hrefna Tynes taldi að upphaf gildisstarfsins byggðist á samtölum sem fram fóru í útilegunni 1950.

Helgina 11.-12. júlí var haldið landsgildismót að Úlfljótsvatni í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá því að eldri skátar komu saman á Úlfljótsvatni og var það vísir að stofnun St. Georgsskátastarfs á Íslandi.

Bálið 5. árgangur kom út, þrjú tbl., fylgirit Skátablaðsins, samtals 12 bls., ritstjóri Eiríkur Jóhannesson.

1976

Hinn 4. mars var styrktarsjóður landsgildisins orðinn það öflugur að landsgildið gat ráðist í kaup á rishæð  við Blönduhlíð 35 í Reykjavík ásamt BÍS, SSR og félagi eldri kvenskáta. Landsgildið varð eigandi að 1/5 hluta húsnæðisins. Þannig fékk landsgildið í fyrsta skipti eigið húsnæði til afnota.

Norðurlandaþing St. Georgsgildanna var haldið í Danmörku og sóttu það 10 gildisfélagar frá Íslandi.

1977

Landsgildið gaf út smábækling til kynningar á starfi og markmiði St. Georgsgilda. Þetta var fyrsti íslenski kynningarbæklingurinn um St. Georgsgildin.

Landsgildisþing var haldið í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði laugardaginn 21. maí. Þar var Hrefna Tynes endurkosin landsgildismeistari og með henni í stjórn þau Björn Stefánsson, Hans Jörgensson, Sigurlaug Arnórsdóttir, Ragnheiður Finnsdóttir, Sigríður Axelsdóttir og Jónas Sigurður Jónsson.

Þar var m. a. samþykkt að Bálið skyldi sent heim til allra gildisfélaga án endurgjalds eigi sjaldnar en þrisvar á ári.

 

Tólfta alþjóðaþing St. Georgsgildanna var haldið í Montreux í Sviss og voru þátttakendur um 450 frá öllum heimsálfum. Frá Íslandi komu 35 þátttakendur og var það í fyrsta skipti sem íslenskir gildisfélagar taka þátt í slíku alþjóðaþingi.

1978

St. Georgsboðskapurinn 1978 var saminn af Hrefnu Tynes landsgildismeistara. Norðurlandaþing St. Georgsgildanna var haldið í Roserbergsslot, sem stendur við Mäleren um 30 km fyrir norðan Stokkhólm Þingið sóttu 9 gildisfélagar úr Reykjavík.

Landsmót St. Georgsgildanna var haldið á Hvammstanga 1.-2. júlí og var í umsjá St. Georgsgildisins á Akureyri. Vel sótt (80) og vel heppnað.

1979

Landsgildisþing var haldið í Langholtsskóla í Reykjavík laugardaginn 28. apríl. Mikill og stormasamur fundur. Þar var m. a. rætt um siðareglur í sambandi við inntöku nýrra félaga. Björn Stefánsson kjörinn í stjórn IFOFSAG.

Alþjóðaþingið haldið í Bergen í Noregi 5.-10. ágúst. Þingið sóttu 560 gildisfélagar frá 25 þjóðum. Þátttakendur frá íslensku gildunum voru 24. Fararstjórar þeirra voru Guðni Jónsson Reykjavík og Albert Kristinsson Hafnarfirði.

1980

Norðurlandaþing St. Georgsgilda var haldið að Hótel Loftleiðum dagana 29. júní- 4. júlí. Yfirskrift þingsins var vinátta. Þingið var sett í Neskirkju að viðstöddum biskupi Íslands og borgarstjóranum í Reykjavík. Erlendir gestir voru 260 og voru þeir boðnir velkomnir með sérstökum hætti. Ragnheiður Finnsdóttir tendraði ljós á íslenskri ljósastiku og bauð dönsku fulltrúana velkomna á dönsku. Björn Stefánsson tendraði ljós og bauð finnsku fulltrúana velkomna á finnsku. Jóhanna Kristinsdóttir tendraði ljós og bauð norsku fulltrúana velkomna á norsku, Guðni Jónsson  tendraði ljós og bauð sænsku fulltrúana velkomna á sænsku. Þá bauð Hrefna Tynes enskumælandi gesti velkomna á ensku. Þingfulltrúar heimsóttu Vestmannaeyjar og farin var ferð um Suðurland (Hveragerði – Skálholt – Flúðir – Gullfoss – Geysir – Þingvellir). Þingstörfin gengu vel og bar þar margt á góma. Lokahófið var á Hótel Loftleiðum og var borðað í tveimur sölum, Víkingasalnum og Kristalssalnum. Dagskráin fór fram í Víkingasalnum og var henni sjónvarpað í Kristalssalinn. Borð voru fagurlega skreytt, maturinn sjávarréttir, logandi lömb og leiftrandi ábætir. Fjölbreytt skemmtiatriði fóru fram meðan á borðhaldinu stóð.

Fjöldi gjafa bárust íslenska landsgildinu. Frá dönsku gildunum silfurbúin öxi ásamt kubbi fyrir undirlag notuð en öxin var notuð sem fundarhamar á Gildehall á fyrsta kvöldi þingsins. Finnsku gildin gáfu stóra rósamálaða tréskál.  Sænsku gildin gáfu stóra skál úr viðarrót.

Stóru skálarnar frá Norðmönnum og Svíum voru notaðar ásamt fötum og plastpokum til að safna fé meðal veislugesta fyrir hjálparstarf Aino Tigerstedt og söfnuðust um 500 þúsund krónur. Myndarleg minjagripaverslun var á þinginu.

Hrefna Tynes var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf að kirkju-og æskulýðsmálum.

1981

St. Georgsdagurinn var haldinn að Bessastöðum 23. apríl að viðstöddum forsetahjónunum Kristjáni Eldjárn og Halldóru Ingólfsdóttur. Forsetinn bauð til stofu og þáðu allir veitingar.

Landsgildisþing var haldið á Akureyri 2. maí í Hvammi, skátaheimili þeirra Akureyringa. Á þingið mættu 38 gildisfélagar. Hrefna Tynes landsgildismeistari setti þingið og skipaði Aðalgeir Pálsson fundarstjóra.

Á þinginu flutti Halldór Pálsson erindi um málefni fatlaðra og Magnús Jónsson forstöðumaður á Sólborg á Akureyri skýrði frá starfsemi fyrir þroskahefta.

Í landsgildisstjórn voru kjörin: Jóhanna Kristinsdóttir landsgildismeistari, Björn Stefánsson varalandsgildismeistari, Ragnheiður Finnsdóttir erlendur bréfritari, Nína Ísberg ritari, Sigríður Axelsdóttir gjaldkeri, Guðni Jónsson fjármálastjóri og Hans Jörgensson meðstjórnandi. Björn Stefánsson tók að sér ritstjórn Bálsins.

Dúi Björnsson var sæmdur gullbjálka St. Georgsgildisins, en hann var fyrsti íslenski landsgildismeistarinn.

Alþjóðaþing IFOFSAG. var haldið í Dijon í Frakklandi dagana 20.- 25. júlí. Þátttakendur frá Íslandi voru 31 talsins. Á þinginu voru saman komnir liðlega 530 gildis-skátar frá 28 löndum.

Björn Stefánsson var kosinn í stjórn IFOFSAG og var fyrsti Íslendingurinn sem þann sóma hlýtur. Íslensku þátttakendurnir ferðuðust um Frakkland bæði fyrir og eftir þingið.

Þetta ár  var rishæðin við Blönduhlíð 35 seld Blindrafélaginu og andvirði hennar lagt í byggingu nýs skátahúss við Snorrabraut.

Vináttudagurinn var í umsjón Keflavíkurgildisins 23. október.

Alþjóðlega skátahreyfingin hlaut fyrstu úthlutun friðarverðlauna UNESCO.

1982

Hinn 22. febrúar var nýtt skátaheimili vígt við Snorrabraut og var landsgildið einn eignaraðila að því. Það fékk þar eitt herbergi til umráða fyrir starfsemi sína.

Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands samdi St. Georgsboðskapinn þetta árið.

Norðurlandaþing St. Georgsgilda var haldið í Lillehammer 20.- 26. júní. Þar mættu íslenskir gildisskátar. Fundur landsgildismeistara var haldinn 24. júní og þar mættu  Hrefna Tynes (f.h. Jóhönnu Kristinsd.) og Sigríður Axelsdóttir

Fyrsta námsstefna IFOFSAG. var haldin í Christianlyst í Slésvík í Norður-Þýskalandi dagana 2.- 7. ágúst. Frá Íslandi sóttu námstefnuna þær Jóhanna Kristinsdóttir landsgildismeistari og Sigríður Axelsdóttir gjaldkeri landsgildisins.

Þá var fyrsta námsstefna landsgildisins haldin í Keflavík laugardaginn 2. október. Í henni tóku þátt auk landsgildisstjórnar, St. Georgsgildin í Reykjavík, Hafnarfirði og Keflavík, fimm félagar frá hverju gildi.

Skátastarf í heiminum á 75 ára afmæli í ár og Akranesgildið á 10 ára afmæli.

Helgi S. Jónsson í Keflavík fór heim 18. desember.

Keflavíkurgildið vígði skátaskála sinn, Tjarnarsel á Hvalsnesi, 5. desember.

1983

Landsgildisþing var haldið í Gagnfræðaskólanum í Keflavík laugardaginn 14. maí. Gildismeistari Keflavíkurgildisins Aðalbergur Þórarinsson bauð þingfulltrúa velkomna. Landsgildismeistari Jóhanna Kristinsdóttir setti þingið og skipaði Sonju Kristensen þingforseta, en Hafstein Hannesson og Jón M. Kristinsson ritara þingsins. Hans Jörgensson flutti frásögn af starfi landsgildisins í 20 ár og Guðrún Sigurbergsdóttir flutti erindi um Félag aldraðra á Suðurnesjum.

Jóhanna Kristinsdóttir var endurkjörin sem landsgildismeistari og með henni í stjórn Björn Stefánsson Keflavík, Aðalgeir Pálsson Akureyri, Guðni Jónsson og Garðar Fenger úr Reykjavík, Sigurlaug Arnórsdóttir og Kristinn Sigurðsson úr Hafnarfirði.

Eftir þingið var þingfulltrúum sýnt Orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og þinginu slitið í Grindarvíkurkirkju um kvöldið.

Fimmtánda alþjóðaþingið var haldið í Holllandi 12.-16. júlí. Sautján gildisfélagar sóttu þingið.

Föstudaginn 2. sept. var boðið til vígslu Skátahússins við Snorrabraut að viðstöddum 200 gestum. Þar fékk landsgildið skrifstofu fyrir sig , auk þess sem það fékk aðgang að fundarherbergi og samkomusal í húsinu. Eignarhlutfall landsgildisins er þá talið vera 1,762% af öllu húsinu en 5,8% í annarri hæð hússins.  Landsgildisstjórn samþykkti að sjá um bókasafn BÍS og buðust Hrefna Tynes og Hans Jörgensson til að koma safninu í gott horf.

Vináttudagurinn var haldinn í Bústaðakirkju 30. október. Ný söngbók prentuð og tekin í notkun.

Hinn 4.–6. nóvember var haldin námsstefna fyrir stjórnir gildanna á Norðurlöndum á Kjesäter, sem er gamall og stór herragarður sem sænska skátabandalagið á.

Efni námsstefnunnar var afstaða gildanna til samfélagsins, afstaða gildanna til skátastarfsins og afstaða gildanna til meðlimanna. Þátttakendur voru 28, þar af þrír frá Íslandi.

Eiríkur Jónsson fór heim 12. desember 83 ára að aldri.

1984

St. Georgsgildið Straumur var stofnað á Úlfljótsvatni 5. maí, en lögheimili þess var í Reykjavík. Fyrsti gildismeistari þess var kosinn Valdimar Jörgensson. Fundarstaður Straums var Skjöldungaheimilið, Sólheimum 22 A. Þar voru um 30-40 manns og var Jóhönnu Kristinsd. landsgildismeistara og maka hennar boðið að vera viðstödd. Jóhanna lauk ávarpi sínu þannig: Heill-gæfa-gengi. Straumur lifi lengi.

Norðurlandaþing St. Georgsgilda var haldið að Dipoli í Esbo í Finnlandi 25. – 29. júní og tóku 14 gildisfélagar frá Íslandi þátt í því. Einkunnarorð þingsins voru: „Gildið og umheimurinn“.

Félagar úr St. Georgsgildunum á Íslandi hittust á Húnavöllum föstudagskvöldið 17. ágúst og dvöldust þar til 19. ágúst. Þátttakendur að sunnan voru 40 talsins, 17 frá Akureyri, auk þriggja áhugamanna frá Blönduósi um skáta- og gildismál. Þáttakendur fóru í ferð fyrir Skaga á laugardaginn með viðkomu í „Kántribæ“ og á Sauðárkróki.

Um kvöldið var stórskemmtilega kvöldvaka í setustofu Húnavalla. Undir hádegi sunnudagsins héldu þátttakendur til síns heima. Sunnlendingarnir nánast flutu suður Kjöl, án þess að sjá  meira en næsta mann í grámuskunni, enda heyrðist í fréttum ríkisútvarpsins, þegar komið var langleiðina niður undir Gullfoss, að Kjalvegur væri gjörsamlega ófær vegna bleytu og fjöldi hópferðabíla sætu fastur á Bláfellshálsi.

Vináttudagurinn var haldinn í Keflavík 28. október. Þar var heiðursfélagi Keflavíkurgildisins nr. 2 kjörinn en það var Kristinn Reyr. Mættir voru 130 gildisskátar.

1985

Sautjánda alþjóðaþing IFOFSAG var haldið 2. – 8. febrúar í Christchurch á Nýja-Sjálandi. Þingið sóttu 530 gildisfélagar frá 23 löndum, þar af 13 gildisfélagar frá Íslandi. Björn Stefánsson lauk sex ára kjörtímabili sínu í stjórn IFOFSAG á þessu þingi. Jóhanna Kristinsdóttir landsgildismeistari var meðal þeirra sem kjörin voru í  nýja stjórn samtakanna. Íslenskir gildisskátar(13) fóru í 6 vikna ferðalag í tengslum við þingið.

Landsgildisþing var haldið í Íþróttahúsinu í Hafnarfirði laugardaginn 4. maí. Gildismeistari Hafnarfjarðargildisins, Ásthildur Magnúsdóttir, ávarpaði þingfulltrúa og bauð þá velkomna til Hafnarfjarðar en Jóhanna Kristinsdóttir landsgildismeistari setti síðan þingið.

Landsgildisþingið kaus eftirtalda í landsgildisstjórn til næstu tveggja ára: Björn Stefánsson Keflavík landsgildismeistara, Guðna Jónsson Reykjavík, varalandsgildismeistara, Garðar Fenger Reykjavík, gjaldkera, Elsu Kristinsdóttur Hafnarfirði, ritara Aðalgeir Pálsson Akureyri, spjaldskrárritara,  Jóhönnu Kristinsdóttur Keflavík, erlendan bréfritara og Hilmar Bjartmarz Garðabæ, útbreiðslu- og blaðafulltrúa.

Gildin á Suðvesturlandi fóru í sumarferð helgina 16. – 18. ágúst. Ekið var um Heydal og vestur að Sælingsdalslaug, en þar var gist í tvær nætur. Laugardaginn 17. ágúst var farin hringferð um Snæfellsnesið, fyrir Jökul, víða stansað og fagrir staðir skoðaðir. Heim var ekið á sunnudag um Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð, síðan um Holtavörðuheiði og Kaldadal. Þátttakendur voru liðlega þrjátíu og skemmtu sér konunglega.

Námsstefna landsstjórnar Norðurlandagilda var haldin í Álaborg 4.- 5. október. Fund þennan sóttu Garðar Fenger, Halldóra Þorgilsdóttir og Guðni Jónsson.

Minnisvarði um Helga S. Jónsson, félagsforingja Heiðarbúa, var afhjúpaður 21. ágúst við Skátahúsið í Keflavík.

1986

St. Georgsgildið í NUUk á Grænlandi 25 ára.

Gildin sunnan heiða héldu árshátíð í Risinu, Hverfisgötu 105, laugardaginn 15. mars. Olga Plank, landsgildismeistari Nýja-Sjálands og stjórnarmaður í IFOFSAG var þar heiðursgestur. Þátttakendur voru á annað hundrað. Straumur sá um árshátíðina með mikilli reisn og sóma.

Í apríl þetta ár kom Bálið út, en útgáfu þess og ritstjórn 1988 annaðist St. Georgsgildið í Reykjavík. Landsgildisstjórn hafði þá fyrir skömmu ákveðið á fundi með gildismeisturum að gildin skyldu annast blaðið og ritstjórn þess til skiptis, eitt ár í senn og reið Reykjavíkurgildið á vaðið í þeim efnum.

Norðurlandaþing St. Georgsgildanna var haldið á Borgundarhólmi 23. – 26. júní. Þátttakendur voru 450.

Gildismót var haldið á Dalvík 22. – 25. ágúst, en þar var haldið til í heimavist Dalvíkurskóla. Mótið sóttu m. a. 50 félagar úr St. Georgsgildunum í Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík auk félaga úr St. Georgsgildinu á Akureyri. Farin var hringferð um Svarfaðardal, farið í Ólafsfjörð og svo í Hrísey, en þar gæddi fólkið sér á Gallowaynautakjöti á hótelinu í Hrísey. Kvöldvaka og varðeldur á Dalvík. Sunnlendingarnir fóru Bárðardal og Kjöl heim.

Akranesgildið var lagt niður í byrjun ársins.

Sólheimaleikarnir voru haldnir í fyrsta skipti 29. júlí og voru gildisfélagar úr Straumi sem sáu um undirbúning.

Í tilefni nýs lýðveldis í Viðey 27. júlí, gaf landsgildið 4 fánastengur sem reistar voru við Skátaheimilið við Snorrabraut.

1987

St. Georgsgildið Straumur tók við útgáfu Bálsins 1987 og annaðist ritstjórn þess. Ritnefndina skipuðu: Júlíus Aðalsteinsson, Sveinn Guðmundsson, Yngvinn Gunnlaugsson, Sigurður Jóhannsson og Kolbrún Hlöðversdóttir.

Laugardaginn 25. apríl var haldin námsstefna í Skátahúsinu í Keflavík. Meðal þeirra sem þar önnuðust fræðslu voru Alan K. B. Beavis forseti IFOFSAG og Per Mikkelsen útbreiðslustjóri samtakanna, en þeir voru hér í boði landsgildisins.

Á námsstefnunni var rætt um framtíðarþróun og eflingu gildisstarfsins og komu fram ýmsar athyglisverðar hugmyndir. Um kvöldið var árshátíð og byrjaði með helgistund í Útskálakirkju. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir heiðraði samkomuna með þátttöku sinni í helgistundinni.

Landsgildisþing var haldið laugardaginn 2. maí í safnaðarheimili Langholtskirkju Reykjavík. Ragnheiður Finnsdóttir, f. h. Reykjavíkurgildisins, bauð gesti velkomna, en Björn Stefánsson landsgildismeistari setti þingið. Fundarstjóri var Marías Þ. Guðmundsson.

María Gunnarsdóttir varaskátahöfðingi ávarpaði þingið og flutti því kveðjur frá Ágústi Þorsteinssyni skátahöfðingja.

Í landsgildisstjórn voru kosin: Björn Stefánsson frá Keflavíkurgildinu, Guðni Jónsson og Garðar Fenger frá Reykjavíkurgildinu, Elsa Kristinsdóttir og Jón Bergsson frá gildinu í Hafnarfirði, Hilmar Bjartmarz frá Straumi og Aðalgeir Pálsson frá Akureyrargildinu. Stjórnin skipti síðan með sér verkum þannig: Landsgildismeistari Björn Stefánsson, varalandsgildismeistari Guðni Jónsson, gjaldkeri Garðar Fenger, ritari Elsa Kristinsdóttir, erlendur bréfritari Jón Bergsson, spjaldskrárritari Aðalgeir Pálsson og útbreiðslu- og blaðafulltrúi Hilmar Bjartmarz.

Alþjóðaþingið var haldið í Coventry 19.- 25. júlí. Þátttakendur voru um 700 frá 55 þjóðlöndum, þar af 25 frá Íslandi.

Gildisfélagar fengu boð frá borgarstjóranum í tilefni 200 ára afmæli Reykjavíkur. Landsgildismeistari ávarpaði samkomuna.

Óskar Pétursson, einn af frumkvöðlum skátahreyfingarinnar, varð áttræður 2. sept. Hann á að baki 70 ára skátastarf.

1988

Landsgildisþing var haldið 2. maí.

Skráð gildi eru 6 en lítið sem ekkert hefur heyrst frá Blönduóssgildinu.

St. Georgsgildið í Hafnarfirði tók við útgáfu og ritstjórn Bálsins 1988.  Ritstjórnina skipuðu Albert Kristinsson, Hörður Zóphaníasson og Jón Kr. Gunnarsson.

Í fyrsta tölublaði Bálsins var í fyrsta sinn „Bætt á bálið“ og það skrifaði Björn Stefánsson landsgildismeistrari.

Árshátíð St. Georgsgilda var haldin í Golfskálanum í Leiru, Keflavík, 16. apríl. Hún þótti takast með ágætum.

Norðurlandaþing gildanna var haldið í Skvöde í Svíþjóð. Þingið sóttu 11 íslenskir gildisskátar. Á þinginu var dreift kynningarbæklingi um fyrirhugað norrænt gildaþing á Íslandi 1990. Bæklinginn hafði landsgildisstjórn látið útbúa.

Alþjóðaþing var haldið í Coventry og sóttu það 25 íslenskir gildisskátar.

Þann 2. nóvember var minnst 75 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. Landsgildið færði skátahreyfingunni stóran vasa sem var skreyttur með merki St. Georgsgildanna og með gylltri áletrun.

1989

St. Georgsgildið á Akureyri tók við útgáfu og ritstjórn Bálsins . Ritstjórnina skipuðu  Gunnar Rafn Einarsson, Aðalgeir Pálsson og Fanney Kristbjarnardóttir.

Landsgildisstjórn skipaði sérstaka nefnd til þess að undirbúa norræna gildsþingið, sem haldið verður í Reykjavík 1990. Nefndina skipuðu Björn Stefánsson, Guðni Jónsson og Hilmar Bjartmarz .

Landsgildisþing var haldið í Lóni á Akureyri 30. apríl. Björn Stefánsson fráfarandi landsgildismeistari baðst undan endurkjöri og lauk 20 ára samfelldu starfi fyrir gildin.

Landsgildisstjórn næstu tvö árin verður þannig skipuð: landsgildismeistari Áslaug Friðriksdóttir, varalandsgildismeistari Hörður Zóphaníasson, gjaldkeri Garðar Fenger, ritari Sonja Kristensen, erlendur bréfritari Jón Bergsson, útbreiðslu- og blaðafulltrúi Hilmar Bjartmarz og spjaldskrárritari Aðalgeir Pálsson.

Áslaug Friðriksdóttir hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní fyrir störf  að skóla-og uppeldismálum.

Átjánda alþjóðaþing IFOFSAG. var haldið í Álaborg í Danmörku dagana 6.-12. ágúst. Þar var Norðurlandaþingið á Íslandi 1990 kynnt með litskyggnum frá Birni Stefánssyni.

Óskar Pétursson fór heim 8. nóvember.

1990

St. Georgsgildið í Keflavík tók við útgáfu og ritstjórn Bálsins. Ritnefndina skipuðu Jóhanna Kristinsdóttir, Sonja Kristensen og Helga Kristinsdóttir.

Norrænt gildaþing var haldið í Reykjavík dagana 16. – 21. júlí 1990. Þema þingsins var: Betri heimur, –  hvað geta gildin gert til að bæta heiminn ?

Egill Strange hannaði nýtt heiðursmerki fyrir landsgildið, sem kom í stað gullbjálkans. Þetta nýja heiðursmerki var veitt í fyrsta skipti á norræna gildaþinginu í Reykjavík.

Merkið hlutu: Jóhanna Kristinsdóttir, Garðar Fenger, Björn Stefánsson, Guðni Jónsson og Hilmar Bjartmarz.

Í tilefni 60 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur forseta hittust 15 gildisfélagar í Vigdísarlundi við Úlfljótsvatn  og gróðursettu þar m.a. 50 birkiplöntur. Minningarsjóður Guðrúnar Bergsveinsdóttur veitti myndarlega fjárupphæð til kaupa á trjáplöntum.  Um 200 plöntur hafa verið gróðursettar þar.

1991

St. Georgsgildið í Reykjavík tók við útgáfu og ritstjórn Bálsins. Ritnefndina skipuðu Þorsteinn Magnússon, Franch Michelsen og Nina Ísberg.

Landsgildisþing var haldið í Golfskálanum í Leiru, Keflavík, laugardaginn 13. apríl

St. Georgsgildið í Keflavík annaðist framkvæmd þess. Stjórn landsgildisins var endurkosin og var starfsskipting stjórnarinnar óbreytt frá því sem var. Árshátíð St. Georgsgildanna var svo haldin með miklum glæsibrag á laugardagskvöldið og var hún í umsjá St. Georgsgildisins Straums. Sunnudaginn 14.apríl var St. Georgsdagurinn haldinn í Keflavík. Hann var einnig í umsjá Straums.

Alþjóðaþing IFOFS AG var haldið í Grikklandi 29. sep.- 5. okt. 1991 Sjö íslenskir gildisskátar sóttu þingið.

Áslaug sótti fund landsgildismeistara á Norðurlöndum 1.-3. nóv.  Fundurinn var haldinn í Kjesäter, gamalli höll suðvestur af Stokkhólmi. Fundurinn ákvað m. a. að Norðurlandagildin skyldu vinna að því að koma á fót gildishreyfingu í Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

1992

St. Georgsgildið í Reykjavík annaðist útgáfu og ritstjórn Bálsins annað árið í röð. Ritnefndin var óbreytt, Þorsteinn, Franch og Nína.

Norrænt gildaþing var haldið í Molde í Noregi 22. – 27. júní og tóku 22 íslenskir gildisskátar þátt í því.

Skátahreyfingin minntist þess með veglegum hætti í Laugardalshöll 2. nóvember að þá voru liðin 80 ár frá því að fyrsta skátafélagið var stofnað á Íslandi. St. Georgsgildin áttu góðan þátt í því að koma upp sýningu á ýmsum skátaminjum í sambandi við afmælishaldið. Halldóra Þorgilsdóttir, Hulda Guðmundsdóttir, Ragnheiður Finnsdóttir og Egill Strange voru fulltrúar St. Georgsgildanna við undirbúning sýningarinnar og skiluðu frábæru starfi, sem og aðrir sem í undirbúningsnefndinni voru.

1993

St. Georgsgildið í Hafnarfirði annaðist útgáfu og ritstjórn Bálsins. Ritnefnd þess skipuðu: Albert Kristinsson, Hörður Zóphaníasson og Jón Kr. Gunnarsson. Út komu fjögur tölublöð, samtals 88 blaðsíður. Hluti allra blaðanna var prentaður í lit.

Landsgildisþing var haldið 24. apríl í Fóstbræðraheimilinu í Reykjavík. St. Georgsgildið Straumur sá um landsgildisþingið og árshátíðina að þessu sinni. Árshátíðargestir skemmtu sér hið besta við mat og söng, skemmtiatriði og dans.

Áslaug Friðriksdóttir landsgildismeistari gaf ekki kost á endurkjöri og var Aðalgeir Pálsson frá Akureyri kosinn landsgildismeistari í hennar stað. Að öðru leyti varð landsgildisstjórnin þannig skipuð: Hörður Zóphaníasson varalandsgildismeistari, Garðar Fenger gjaldkeri, Sonja Kristensen ritari og meðstjórnendur þau Fanney Kristbjarnardóttir, Hilmar Bjartmarz og Jón Bergsson.

Áslaug Friðriksdóttir var formaður í samtökum landsgildismeistara á Norðurlöndum undangengið kjörtímabil.

St. Georgsgildið í Hafnarfirði og St. Georgsgildið í Keflavík fögnuðu 30 ára afmæli.

Tuttugasta alheimsmót St. Georgsgilda var haldið í Indónesíu 16.- 22. maí 1993. Tveir íslenskir gildisskátar sóttu þingið, hjónin Kristín Finnsdóttir og Garðar Fenger, úr St. Georgsgildinu í Reykjavík.

1994

St. Georgsgildið í Hafnarfirði annaðist útgáfu og ritstjórn Bálsins með sömu ritnefnd og árið áður. Út komu fjögur tölublöð, öll litprentuð að hluta, samtals 96 blaðsíður.

Jóhanna Kristinsdóttir og Ragnheiður Finnsdóttir sóttu fund hjá Europian Forum gildinu 17.-22. janúar og urðu þar með fyrstar Íslendinga til að sækja slikan fund.

Hinn 27. júní- 2.júlí 1994 var norrænt gildaþing haldið í Hämeenlinna í Finnlandi. Þingið sóttu 14 gildisskátar frá Íslandi.

Haustmót St. Georgsgildanna á Íslandi var haldið í Skorradal síðustu helgina í ágúst. Mótsstaður var Skátafell, útileguskáli skátanna á Akranesi. Á þessu móti var keppt í skífukasti í fyrsta sinn á Íslandi og fór Keflavíkurgildið með sigur af hólmi. Um 70 manns tóku þátt í þessu haustmóti.

St. Georgsgildið Straumur fagnaði 10 ára afmæli  á Úlfljótsvatni. Vináttudagurinn var í umsjá Hafnarfjarðargildisins, haldinn 30. október í St. Jósefskirkjunni á Jófríðarstöðum. Um 120 gildisskátar tóku þátt í Vináttudeginum að þessu sinni.

1995

St. Georgsgildið á Akureyri annaðist ritstjórn og útgáfu Bálsins. Ritstjórn skipuðu: Brynjólfur Tryggvason ábm., Ingigerður Traustadóttir, Valgeir Torfason og Þórdís Tryggvadóttir. Út komu þrjú tölublöð, öll litpentuð að hluta til, samtals 72 bls.

Landsgildisþing var haldið í Hafnarfirði sunnudaginn 30. apríl. Áttatíu og átta gildisskátar sóttu þingið.

Nýtt gildi var samþykkt í landsgildið, Andvarar á Sauðárkróki. Þingið staðfesti aðild landsgildisins að minjanefnd skáta, en að henni standa einnig BÍS og SSR.

Ný landsgildisstjórn var kosin á þinginu þannig skipuð: Aðalgeir  Pálsson landsgildismeistari, Einar Tjörvi Elíasson varalandsgildismeistari, Sonja Kristensen ritari, Fanney Kristbjarnardóttir gjaldkeri, Jón Bergsson erlendur bréfritari, Þórdís Katla Sigurðardóttir útbreiðslu- og blaðafulltrúi og Helgi Hannesson spjaldskrárritari. Hörður Zóphaníasson og Hilmar Bjartmarz báðust undan endurkjöri í landsgildisstjórn.

Velheppnuð árshátíð var haldin um kvöldið í Hraunholti undir stjórn Rúnars Brynjólfssonar. Árshátíðina sóttu 93 gildisfélagar og skemmtu sér hið besta.

1996

St. Georgsgildið á Akureyri annaðist áfram ritstjórn Bálsins með sömu ritstjórn. Út komu þrjú tölublöð, öll litprentuð að hluta til, samtals 72 blaðsíður.

Landsgildismeistari, Aðalgeir Pálsson, sótti fund og ráðstefnu NUR, sem var haldinn í nágrenni Oslóarborgar í Noregi. Þemu ráðstefnunnar voru „Eitt sinn skáti, ávallt skáti“ og „Gildastarf í fortíð, nútíð og framtíð“.

Nýtt gildi var stofnað á Akureyri, St. Georgsgildið Kvistur. Stofnendur voru 50 talsins. Tveir skátar frá Litháen komu á landsmót skáta á Úlfljótsvatni í boði landsgildisins. Þau hétu Laura og Tauras og voru frá Kaunas, næst stærstu borg í Litháen. Sonja Kristensen og Jón Kristinsson í Keflavíkurgildinu tóku á móti þeim og á heimili þeirra dvöldust þau Laura og Tauras í góðu yfirlæti fyrir og eftir mótið.

Allmargir gildisskátar sinntu margvíslegum störfum á Landsmóti skáta 1996, aðrir komu á móti og ýmist gistu þar eða dvöldu á mótinu daglangt.

Átta íslenskir gildisskátar sóttu 21. þing IFOFSAG – ISGF, sem haldið var í Monte Grotto Terme á Ítalíu 30. júní -6. júlí 1996.

Vísnagaman og vinamál, ljóðabók Harðar Zóphaníassonar, var gefin út af St. Georgsgildunum á Íslandi, Hraunbúum og BÍS.

1997

St. Georgsgildið í Keflavík sá um útgáfu og ritstjórn Bálsins. Ritstjóri þess og ábyrgðarmaður var Björn Stefánsson. Með honum í ritnefnd voru Jóhanna Kristinsdóttir, Jakob Árnason og Ólafía Einarsdóttir. Út komu þrjú tölublöð prentuð í svart-hvítu, samtals 48 bls.

Landsgildisþing var í umsjá Reykjavíkurgildisins og haldið 3. maí í Fóstbræðraheimilinu í Reykjavík. Fagnað var komu tveggja nýrra gilda í landsgildið, St. Georgsgildinu Kvisti á Akureyri og St. Georgsgildi Kópavogs, sem stofnað var 17. apríl 1997.

Landsgildismeistari Aðalgeir Pálsson baðst undan endurkjöri og var Hörður Zóphaníasson kosinn í hans stað. Aðrir sem kosnir voru í landsgildisstjórn: Einar Tjörvi Elíasson, Guðrún Nikulásdóttir, Jón Bergsson, Sesselja G. Halldórsdóttir og Þórdís Katla Sigurðardóttir.

Þrír gildisskátar voru heiðraðir á þinginu með heiðursmerki landsgildisins. Það voru þær Ásdís J. Kristjánsdóttir, Gyða Guðjónsdóttir og Þórdís Katla Sigurðardóttir.

Um kvöldið var haldin árshátíð, þar sem menn skemmtu sér konunglega.

Norrænt gildaþing var haldið 23.- 28. júní í Faaborg á Fjóni og sóttu það átta íslenskir gildisskátar.

1998

St. Georgsgildið í Keflavík sá áfram um útgáfu og ritstjórn Bálsins og var ritstjórn þess óbreytt frá fyrra ári. Út komu þrjú tölublöð, samtals 52 blaðsíður.

Haustmót var haldið á Hofsósi 11.-12 september og þótti afar vel heppnað. Farið var í kynnisferð til Siglufjarðar og bærinn skoðaður undir leiðsögn bæjarstjóra, sem bauð síðan til hádegisverðar. Komið var við á Hólum á heimleið og notið helgistundar í Hólakirkju hjá Gísla Gunnarssyni presti í Glaumbæ.

1999

Fanney Kristbjarnardóttir tók við ritstjórn Bálsins. Út komu þrjú tölublöð samtals 52 blaðsíður.

Landsgildisþing var haldið á Akureyri  laugardaginn 24. apríl. Setning þingsins var helguð minningu Tryggva Þorsteinssonar, en hann hefði orðið 88 ára þennan dag hefði hann lifað. Tveir erlendir gestir voru á þinginu, dönsku hjónin Hanne og Bent Monberg.  Hanne hélt erindi á þinginu um alþjóðlegt gildastarf.

Hörður Zóphaníasson var endurkjörinn landsgildismeistari og með honum í landsgildisstjórn voru kosin Aðalbergur Þórarinsson, Einar Tjörvi Elíasson, Jón Bergsson, Kjartan Jarlsson, Pétur Torfason og Þórdís Katla Sigurðardóttir.

Sex gildisskátar voru sæmdir heiðursmerki landsgildisins á þinginu þau Aldís Lárusdóttir og Richard Þórólfsson Akureyri, Einar Tjörvi Elíasson og Þórður Jónsson Reykjavík og Elsa Kristinsdóttir og Sigurlaug Arnórsdóttir Hafnarfirði.

2000

Ritstjóri Bálsins var sami og árið áður Fanney Kristbjarnardóttir, en aðstoðarritstjóri og fulltrúi Bálsins á Norðurlandi var Guðný Stefánsdóttir. Út komu þrjú tölublöð, samtals 48 blaðsíður.

Nýtt gildi var stofnað 22. febrúar í Hveragerði og hlaut nafnið St. Georgsgildi Hveragerðis. Stofnfélagar voru 18. Karlinna Sigmundsdóttir var kosin gildismeistari.

Norrænt gildaþing var haldið í Mora í Svíþjóð 26. júni -1. júlí. Þingið sóttu 14 íslenskir gildisskátar.

Haustmót var haldið í Vatnaskógi í húsnæði KFUM dagana 23. og 24. september. Farið var í skoðunarferð til Akraness og m. a. var dvalarheimilið Höfði heimsótt, sýning í bókasafninu á skátaminjum skoðuð og hús tekið á franska listamanninu Philippe Ricart, sem býr og starfar á Akranesi. Þátttakendur voru um 50 talsins.

Skipuð nefnd til undirbúnings Norðurlandaþingsá Akureyri 2003. Í  henni voru:

Aðalgeir Pálsson formaður, Jónas Finnbogason, Hilmar Bjartmarz, Björn Stefánsson, Kristín Harðardóttir, Gunnar Rafn Einarsson, Einar Tjörvi Elíasson og Pétur Torfason.

St. Georgsdagurinn var haldinn í Kópavogi og Vináttudagurinn í Reykjavík.

2001

Samantekt 2001-2002: Ásta Sigurðardóttir

Við ritstjórn bálsins tóku: Hörður Zóphaníasson, Aðalbergur Þórarinsson og Einar Tjörvi Elíasson. Út komu 3 tölublöð.

Þann 24. febrúar, á 75 ára afmæli Gunnars Eyjólfssonar leikara og fyrrverandi skátahöfðingja, var hann gerður að heiðursfélaga Keflavíkurgildisins.

Í maí var haldið landsgildisþing í Keflavík.

Stjórn landsgildins 2001-2003 var kjörin, hana skipa:

 • Landsgildismeistari, Hörður Zóphaníasson.
 • Varalandsgildismeistari, EinarTjörvi Elíasson.
 • Ritari, Kjartan Jarlsson.
 • Gjaldkeri, Aðalbergur Þórarinsson.
 • Erlendur bréfritari, Jón Bergsson.
 • Útbreiðslu og blaðafulltrúi, Valdimar Már Pétursson.
 • Spjaldskrárritari, Nils Gíslason

Nils Gíslason flutti til útlanda skömmu síðar og Eyrún Eyþórsdóttir kom inn í stjórn í hans stað.

Á landsgildisþinginu  hlutu eftirtaldir gildisskátar heiðursmerki landsgildisins fyrir gott skátastarf: Kristbjörg Rúna Ólafsdóttir, Fanney Kristbjarnardóttir, Gunnar Rafn Einarsson, Gunnar Eyjólfsson, Halldór A. Brynjólfsson og Elísabet  Ólafsdóttir.

Evrópuþing var haldið í Budapest í Ungverjalandi í júní, þangað fóru rúmlega fjörtíu  gildisskátar frá Íslandi.

Friðarloginn kom til Íslands 19. desember.

Þann 23. desember fór Dúi Björnsson heim, en hann var, auk margra starfa í þágu skáta, kjörinn fyrsti landsgildismeistarinn árið 1963.

Reykjavíkurgildið annaðist  St. Georgsdaginn í apríl og Vináttudagurinn var haldinn í Hveragerði í október.

2002

Á árinu komu út tvö tölublöð af Bálinu. Hið fyrra í umsjón Kvists og  hið síðara í umsjón St. Georgsgildisins á Akureyri.

Níutíu ára afmælis skátastarfs á Íslandi var minnst með landsmóti að Hömrum við Akureyri. Lögðu gildin þar fram drjúgt liðsinni.

Í september var haldið vel heppnað haustþing í Kópavogi undir stjórn Kópavogsgildisins.

Fyrsta sunnudag í aðventu var Friðarloginn fluttur frá Hafnarfirði í aðrar byggðir landsins í fyrsta sinn.

Á árinu var ötullega unnið að undirbúningi norræna gildisþingsins sem var síðan haldið á Akureyri í júní 2003.

2003

Samantekt 2003-2005: Einar Tjörvi Elíasson

Á þinginu 23. Október 2003 gaf Hörður Zóphaníasson ekki kost á sér sem landsgildismeistara og voru eftirtaldir kjörnir í stjórn landsgildisins:

 • Einar Tjörvi Elíasson, landsgildismeistari;
 • Valdimar Már Pétursson, varalandsgildismeistari;
 • Kjartan Jarlsson, ritari;
 • Sesselja Halldórsdóttir, gjaldkeri;
 • Jón Bergsson erlendur bréfritari;
 • Lára Björnsdóttir og Hákon Guðmundsson

Nýja stjórnin setti sér strax  á fyrsta fundi eftirtalin markmið:

 • Að stuðla að fremsta megni að fjölgun í gildishreyfingunni
 • Vinna að nánara samstarfi við skátahreyfinguna
 • Stofna til vinagilda
 • Efla alþjóðlegt samstarf með áherslu á Norðurlöndin

Mikið starf var unnið við að samræma og uppfæra félagatal fyrir gildin og á Kjartan Jarlsson, ritari Landsgildisins, stærstan heiður af því, að í dag liggur fyrir fullkomið, uppfært félagatal sem nær yfir öll gildin níu.

Bálið: Fljótlega eftir landsgildisþing tók stjórn þess ákvörðun um að reyna að koma á meiri festu og skipulagi á útgáfu Bálsins. Fyrst voru gildin beðin um að skipa fulltrúa í ritnefnd blaðsins og síðan var leitað eftir föstum samningi um prentun þess og dreifingu. Ritstjóri þess, Lára Björnsdóttir, tók málið föstum tökum og náði hagkvæmum samningum við Litlaprent, sem er lítil prentsmiðja í Kópavogi. Ritnefnd var skipuð og fyrsta blaðið undir nýrri ritstjórn sá dagsins ljós í upphafi árs 2004.

Bálið kom út tvisvar undir ritstjórn Láru. Af persónulegum ástæðum hætti Lára ritstjórn Bálsins og setu í stjórn. Ekki tókst að fá staðgengil og bauðst landsgildismeistari til að taka yfir ritstjórn og umbrot blaðsins eins og samningurinn við prentsmiðjuna kvað á um. Hefur landsgildismeistari annast þetta síðan.

Ein breyting var gerð á Bálinu til að mæta miklum áhuga á því erlendis, sérlega meðal nágranna okkar á Norðurlöndum. Því var ákveðið að skrifa samantekt um efni blaðsins á enskri tungu. Ástæða þess að enska var valin er aukin áhersla á alþjóðlegt starf meðal St. Georgsgilda og skáta. Enn hvíla þó sömu vandamálin á útgáfu Bálsins. Verstir viðureignar eru erfiðleikar við að afla fjárstuðnings til að mæta kostnaði við útgáfu þess. Því var gripið til þess ráðs að fá gildin til að leggja fram fasta styrktarlínu í blaðið hvað þau flest hafa gert.

Hitt vandamálið er að gildin senda ekki reglulega inn frásagnir og/eða myndir er segja frá starfinu í gildunum. Slíkt gæti vakið áhuga yngri kynslóða á að gerast meðlimir gildunum eða stofna ný gildi og taka virkan þátt í starfi nú.

Friðarloginn hefur allt frá upphafi vegar verið geymdur í kirkju St. Jóseps í Hafnarfirði. Þar hefur hann notið einstaklega góðrar umsjár kirkjuvarðarins og gildisskátans Ásgeirs Sörensen og konu hans. Herra Jakob Roland sóknarprestur St. Jósefskirkju hefur einnig sýnt Friðarloganum og hugsjóninni sem hann boðar einstaka tryggð og verið okkur mikill haukur í horni bæði er varðar vörslu logans og hátíðina, sem við höldum er hann fer af stað um landið í byrjun aðventu.

Olíufélag Íslands hefur látið af hendi olíuna sem fæðir Friðarlogann án endurgjalds. Einnig hefur BÍS og mörg skátafélög landsins hafa aðstoðað landsgildið við dreifingu logans um landið. Friðarljós tendruð af honum hafa verið borin í kirkjur, skóla, og kirkjugarða víða um land og nýtur þetta vinsælda. Fyrir hönd landsgildisins hefur Valdimar Már borið hitann og þungann af þessu starfi. Þess má geta hér að Norðurlöndin öll hafa tekið upp þennan hátt á varðveislu Friðarlogans og þetta fyrirkomulag hefur margsannað gildi sitt, sérstaklega í löndum eins og í Noregi, þar sem loginn þarf að berast langar vegalengdir og ekki er auðvelt að dreifa honum til gilda í dreifbýlinu.

Fjölgun gilda: Ekkert hefur miðað áfram í fjölgunarmálum, þótt víða hafi verið reynt. Niðurstaða stjórnar er að víða sé meðalaldur í gildunum orðin svo hár að aldursbilið virki letjandi á yngri kynslóðina og það sé því líklegra til árangurs að stofna fremur ný gildi, sem gjarna mættu tengjast þeim eldri þótt þau bæru annað nafn eins og þekkt er meðal nágranna okkar td. í Noregi og Svíþjóð. Jafnframt er mikil þörf á betri kynningu gildisstarfsins út á við með kynningarspjöldum o.þ.h. gjarna í sam­starfi við norræna bræður okkar og systur.

Haustmót: Sú hugmynd kom fram í landsgildisstjórn að tengja tilraun til þess að stofna ný gildi haustmótinu. Í því skyni var ákveðið að halda mótið á Njáluslóðum. Ekki fékkst nægjanleg þátttaka svo mótið var fellt niður.

Erlent samstarf: Haldið hefur verið áfram framkvæmd þeirrar stefnu er mörkuð var á Norðurlandaþinginu á Akureyri 2003. Norræna gildasambandið stóð fyrir málþingi skáta og gildisskáta í Kjersäter Svíþjóð, þar sem samstarf skáta og gildisskáta var rætt, ásamt því hvernig best yrði staðið að fjölgun bæði innan skáta- og gildishreyfinga. Ræddar voru ýmsar lausnir og niðurstöður. Sesselja Halldórsdóttir sótti þingið bæði sem fulltrúi íslenskra skáta og gildisskáta og fórst það vel úr hendi. Þing Evrópudeildar ISGF var haldið í Kantaraborg í júní 2004. Það sóttu 17 fulltrúar frá Íslandi. Á þinginu lögðu norrænu gildin fram tillögur að breyttu stjórnskipulagi ISGF og fyrir þeim töluðu Rigmor Laurandsen, Danmörku og landsgildismeistari Íslands. Tillögurnar vöktu almenna athygli og hafa orðið til þess að NUR hefur nú lagt fram tillögur um breytingar á samþykktum ISGF fyrir heimsþingið í Lillehammer 2005. Þær stefna að fækkun í WCOM, styttri boðleiðum og meiri sveig­janleika. Nokkur málþing voru haldin um þessi mál og sótti Einar Tjörvi þau öll fyrir hönd Íslands. Jafnframt voru haldin tvö málþing, eitt í Litháen og annað í Danmörku, til að hrinda í framkvæmd ákvörðun norræna þingsins um útvíkkun NUR, þ.e. að sameina gildasambönd Norðurlanda og Eystrasaltslandanna í eitt gildasamband norræna baltíska gildasambandið „Nordic Baltic Sub-region“ (NBSR). Þetta tókst á málþinginu í Dragör sl. mars nema hvað Lettland bað um lengri frest, og nú er aðeins eftir að ganga formlega frá þessu á World Congress 2005.

Á þinginu í Kantaraborg gerðust St. Georgsgildin á Íslandi ævifélagi í ambassadorgild ISGF og er gert ráð fyrir því að kjörinn landsgildismeistari landsgildisins hverju sinni fari með hlutverk fulltrúa Íslands í því. Á árinu var formlega stofnaður sjóður í nafni Hrefnu Tynes innan ”The Olave Baden Powell OBPS” félagsins til styrktar kvenskátum. Baldalag íslenskra skáta, landsgildið og St. Georgsgildið í Reykjavík  lögðu fram ríflegt fjárframlag í þessum tilgangi. Skátahöfðingi Íslands veitti viðtöku  staðfestingarskjali úr hendi Benediktu prinsessu í lok janúar þessa árs.

Vináttugildi:

Þessi siður er ekki mjög algengur hjá St. Georgsgildum á Íslandi.

Þó eru undantekningar þar á og þar helst til að nefna vináttusamband St. Georgsgildisins á Akureyri og Molde gildisins í Noregi. Fyrstu rætur þess má rekja til NUR þingsins í Mora og frekari staðfestingu þess á norræna þinginu á Akureyri 2003. Á Kantaraborgar þinginu var tekið upp vináttusamband milli landsgildisins á Íslandi og landsgildis Rúmeníu.

Fjármál: Fjárhagsleg staða landsgildisins er ennþá viðunandi, en ekki getur það lengi staðið undir útgáfu Bálsins að öllu óbreyttu.

2005

Samantekt 2005-2011: Elín Richards

Landsgildisþing var haldið í Kópavogi  30. apríl 2005.

Stjórn skipuðu:

 • Landsgildismeistari: Elín Richards, Kópavogi
 • Varalandsgildismeistari: Einar Tjörvi Elíasson, Reykjavík
 • Gjaldkeri: Hreinn Óskarsson, Keflavík
 • Ritari: Kjartan Jarlsson, Kópavogi
 • Erlendur bréfritari: Jón Bergsson, Hafnarfirði
 • Spjaldskrárritari: Karlinna Sigmundsdóttir, Hveragerði
 • Blaða- og útbreiðslufulltrúi: Hákon Guðmundsson, Akureyri

2007

Landsgildisþing var haldið í Hveragerði 5. maí 2007.

Stjórn skipuðu:

 • Landsgildismeistari: Elín Richards, Kópavogi
 • Varalandsgildismeistari: Einar Tjörvi Elíasson, Reykjavík
 • Gjaldkeri: Hreinn Óskarsson, Keflavík
 • Ritari: Kjartan Jarlsson, Kópavogi
 • Erlendur bréfritari: Jón Bergsson, Hafnarfirði
 • Spjaldskrárritari: Karlinna Sigmundsdóttir, Hveragerði
 • Blaða- og útbreiðslufulltrúi: Hákon Guðmundsson, Akureyri
  Fjóla Hermannsdóttir, Akureyri

2009

Landsgildisþing var haldið á Akureyri 9. maí 2009.

Stjórn skipuðu:

 • Landsgildismeistari: Elín Richards, Kópavogi
 • Varalandsgildismeistari: Kjartan Jarlsson, Kópavogi
 • Gjaldkeri: Hreinn Óskarsson, Keflavík
 • Ritari: Valgerður Jónsdóttir, Kvisti
 • Erlendur bréfritari: Jón Bergsson, Hafnarfirði
 • Spjaldskrárritari: Claus Hermann Magnússon, Hafnarfirði
 • Blaða- og útbreiðslufulltrúi: Magnea Árnadóttir, Hveragerði

2011

Landsgildisþing var haldið í Reykjavík (Straumur) 2011.

Stjórn skipuðu – til 6. nóvember 2011

 • Landsgildismeistari: Elín Richards, Kópavogi
 • Varalandsgildismeistari: Magnea Árnadóttir, Hveragerði
 • Gjaldkeri: Hreinn Óskarsson, Keflavík
 • Ritari: Valgerður Jónsdóttir, Kvisti
 • Erlendur bréfritari: Kjartan Jarlsson, Kópavogi
 • Spjaldskrárritari: Claus Hermann Magnússon, Hafnarfirði
 • Blaða- og útbreiðslufulltrúi: Ásta Gunnlaugsdóttir, Hveragerði
 • Varamaður: Guðvarður B. F. Ólafsson, Hafnarfirði

Bálið

Einar Tjörvi var ritstjóri og sá um uppsetningu  Bálsins meðan hann var í landsgildisstjórn. Frá landsgildisþingi 2009 var Elín Richards ritstjóri en Guðni Gíslason í Hafnarfirði tók að sér uppsetningu. Gerður var samningur við Stapaprent í Keflavík um prentun.

Síðla árs 2005 var gerð tilraun til að fá styrktaraðila til að styðja útgáfu Bálsins. Ýmsum fyrirtækjum og einstaklingum voru rituð bréf en lítið sem ekkert kom út úr þeirri viðleitni.

Við endurhönnun á geymslu landsgildisins í Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123, var gert ráð fyrir að ávallt færu 10-15 eintök af Bálinu þangað til varðveislu. Einnig er gjöf Björns Stefánssonar, Bálið innbundið frá upphafi til ársloka 2010, varðveitt þar.

Bálið er rekið með töluverðu tapi hverju sinni og er það greitt úr sjóðum landsgildisins. Blöðum hefur verið fækkað úr 4  í 2 -3 (það ár sem landsgildisþing fer fram) og reynt að leita tilboða í prentun, fækka prentuðum eintökum, afla auglýsinga o.s.frv.

Friðarloginn

Friðarloginn var varðveittur í St. Jósefskirkjunni í Hafnarfirði til ársins 2008, en þá var hann fluttur í Klaustrið í Hafnarfirði. Ásgeir Sörensen sá um samskipti við nunnurnar, vörsluaðilana, þangað til hann féll frá 2010 en síðan hefur ekkja hans  Renata séð um þau samskipti sem og kaup á kertum sem landsgildið og BÍS hafa kostað. Árlega er starfandi friðarloganefnd með fulltrúum landsgildisins og BÍS og skipuleggur sú nefnd afhendingu logans sem ávallt er hátíðleg athöfn í byrjun aðventu. Meðan loginn var afhentur í kirkjunni var sú athöfn við messu á 1. sunnudegi í aðventu, en eftir að loginn fluttist í Klaustrið hefur verið hafður sá háttur á að hafa athöfn að kvöldlagi í kapellu Klaustursins stuttu fyrir upphaf aðventu.

Nokkur vinna var um tíma í að útvega fleiri luktir og tunnur til að flytja logann í.

Fjölgun/ fækkun gilda og gildisfélaga

Ekki hefur gengið að fjölga gildum þrátt fyrir ýmsar þreifingar víða um land. Gildisfélagar falla frá og fáir bætast í skörðin. Á landsgildisþingi 2009 var tekin sú ákvörðun að strika St. Georgsgildið Andvara úr bókum landsgildisins, en frá þeim hafði hvorki heyrst hósti né stunda í mörg ár. Á vormánuðum 2010 var tekin sú ákvörðun að leggja niður Reykjavíkurgildið sem var elsta starfandi gildið á Íslandi. Landsgildisstjórn setti sér það markmið að hafa félagatalið ávallt sem réttast og við tiltekt í því  hefur fækkað mjög eða úr 350 félögum 2005 og niður í 250 árið 2011.

Fundir með gildis- og varagildismeisturum

Árlegir fundir eru haldnir með öllum gildis- og varagildismeisturum í byrjun nóvember. Þar fara fram umræður um starfið og stefnumörkun og skipst er á upplýsingum og hugmyndum. Lögð er áhersla á að gildin skili skýrslum og uppfærðum félagatölum rafrænt til ritara landsgildisins.

Breyting samþykkta

Árið 2008 kom upp sú staða að einn stjórnarmanna Hákon Guðmundsson hætti skyndilega í stjórn. Landsgildisstjórn var þá í nokkrum vafa um hvernig með slíkt skyldi fara því ekkert í samþykktum fjallaði um slíka stöðu. Ákveðið var að Akureyrargildið tilnefndi annan fulltrúa í stjórn sem var Fjóla Hermannsdóttir. Í kjölfarið var undirbúin breyting samþykkta á landsgildisþinginu 2009 sem fjallar um kjör varamanna (kom fyrst til framkvæmda 2011) og einnig var komið inn í dagskrá landsgildisþings að heiðranir fari fram áður en formleg dagskrá hefst. Einnig var orðalagi nokkurra greina breytt lítilsháttar.

Á landsgildisþingi 2011 var borin upp tillaga frá Kvisti um að enginn stjórnarmaður gæti setið lengur en tvö kjörtímabil í einu í landsgildisstjórn.

Allar þessar breytingar voru samþykktar.

Nauðsynlegt er að athuga vel og tímanlega standi til að breyta samþykktum, en slíkt er eingöngu gert á landsgildisþingum. Einnig má hafa til hliðsjónar, af fenginni reynslu, að uppstillinganefnd fái skriflega ákvörðun þeirra sem taka að sér stjórnarsetu í landsgildisstjórn.

Samstarf við BÍS

Samstarf við BÍS er ekki mjög fyrirferðarmikið í vinnu stjórnar. Árlega er samstarf um friðarlogann.  Fulltrúar úr stjórn landsgildisins hafa átt nokkra fundi með fulltrúum úr stjórn BÍS, skátahöfðingja og starfsmönnum BÍS og einnig fara bréfaskrif  stundum á milli.

Erlent samstarf

Árlega þarf að fylla út nokkrar skýrslur og senda til ISGF og NBSR. Þetta verk hafa ýmist varalandsgildismeistari, ritari eða gjaldkeri annast en réttast er að það sé í höndum erlends bréfritara.

Landsgildismeistari eða fulltrúi hans sækir fundi í NBSR. Árið 2009 var gerð sú breyting að í stað árlegra funda verði 2 fundir á hverjum 3 árum og að hvert land greiði sinn kostnað af þessum fundum. Ísland og Litháen eiga samt að fá styrk (2000 kr danskar) vegna hærri ferðakostnaðar en hjá hinum löndunum. Jafnframt lækkaði gjaldið í NBSR í 1 kr. danska á mann á ári. Kostnaður er greiddur úr sjóði landsgildisins nema þegar fundurinn fellur að norrænu þingi þá greiðir hver fyrir sig.  Fundirnir skulu þegar því verður við komið haldnir sem næst Kaupmannahöfn / Kastrupflugvelli, nema þeir sem haldnir eru í tengslum við Norrænu þingin.

Þeir hafa verið:

Osló- Noregi                           2006 (Einar Tjörvi)

Bodö – Noregi                         2006 (Elín og Einar Tjörvi)

Vilnius- Litháen                       2007 (Elín)

Vesterås- Svíþjóð                    2008 (Elín)

Mariehamn – Álandseyjar          2009 (Elín)

Kaupmannahöfn – Danmörk      2011 (Elín)

Þing NBSR eru haldin á 3 ára fresti:

Bodö 2006 17 þátttakendur frá Íslandi

Álandseyjar 2009 13 þátttakendur frá Íslandi

Evrópuráðstefnur

Crackdown 2007 – enginn frá Íslandi

Kýpur 2010 – enginn frá Íslandi

Alþjóðaráðstefnur

Vínarborg 2008 – 3 Íslendingar

Como- Ítalíu 2011 – enginn frá Íslandi

Norrænu gildin hafa gefið út sameiginlegt rafrænt fréttabréf  „Newsletter“ frá 2005 og var Einar Tjörvi ritstjóri þess til ársins 2009 en þá tóku Norðmenn við.

Einar Tjörvi tók einnig saman sögu NBSR 2007.

Ísland vann mikla vinnu við mótun stefnu og strauma bæði fyrir NBSR og ISGF. Einnig lagði Ísland mikla vinnu í undirbúning vegna alþjóðaráðstefnunnar 2008 þegar ráðstefnan var tekin af Túnis með stuttum fyrirvara. Valið stóð að lokum milli Íslands og Austurríkis og hafði Austurríki betur.

Jafnan berast boð á landsgildisþing norrænu gildanna og Ísland sendir einnig boð til þeirra þegar okkar landsgildisþing eru.

Vorið  2010 tóku gildin (Keflavík, Hveragerði og landsgildismeistari) á móti 9 gildisskátum frá Nuuk á Grænlandi sem voru í Íslandsheimsókn.

NBSR hefur tekið að sér skipulagningu á Evrópuráðstefnunni í september 2013.

 

Ýmislegt:

Geymslan – eigur landsgildisins – fjármál – heimabanki – heimasíðan – haustmót – búningar

Eitt það fyrsta sem nýkjörin stjórn 2005 tók sér fyrir hendur var að kanna innihald geymslu landsgildisins sem staðsett er undir stiga í Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123.

Þangað hafði í áranna rás ýmislegt safnast og enginn í stjórninni hafði hugmynd um hvað þar var. Var gengið í að flokka það sem þar var og fljótt var komist að því að mjög margt var hreinlega rusl sem síðan var farið með í Sorpu. Tekið var til í hillum og verðmætum með minjagildi raðað í þær. Keyptar voru nokkrar möppur undir skjöl og annað.

Á haustdögum 2005 var tekin sú ákvörðun með nýjum gjaldkera að sameina ýmsa bankareikninga sem landsgildið átti og leita hagstæðustu vaxtakjara sem bjóðast hverju sinni. Einnig var stofnaður heimabanki og eftirleiðis eiga allar greiðslur til og frá landsgildinu að fara fram rafrænt. Gunnar Rafn Einarsson hefur séð um uppsetningu á reikningum landsgildisins mörg undanfarin ár.

Landsgildið hefur greitt kostnað vegna stjórnarliða og annarra sem koma á fundi landsgildisins frá Akureyri.

Heimasíða landsgildisins var vistuð hjá BÍS og var miklum vandkvæðum bundið að uppfæra hana og breyta eins og þarf til að heimasíða virki og sé ávallt með nýjustu upplýsingum. Leitað var ýmissa leiða og árið 2009 var tekin ákvörðun um um að stofna nýja heimasíðu www.stgildi.is sem Böðvar Eggertsson í Kvisti hefur umsjón með en auðvelt er fyrir öll gildin að setja efni inn á síðuna. Enn á eftir að taka ákvörðun um eyðingu gömlu síðunnar hjá BÍS.

Í samþykktum landsgildisins stendur að haustmót skuli haldið það ár sem ekki er landsgildisþing. Það hefur verið reynt nokkrum sinnum en því miður er áhugi og þátttaka ekki sem skyldi.

2006 – Landsgildið í Reykholti í Borgarfirði

2008 – Akureyrargildið í Staðarskála í Hrútafirði – féll niður vegna þátttökuleysis

2010 – Hafnarfjarðargildið – var aldrei auglýst

St. Georgsdagurinn og Vináttudagurinn eru jafnan haldnir hátíðlegir sunnan heiða og skiptast gildin á um að hafa umsjón með þeim. Því miður hefur þátttakendum þar einnig fækkað að mun undanfarin ár.

Landsgildisstjórn hefur haft fyrir sið í all mörg ár, að senda jólakort til gildanna innanlands og utan sem og til þeirra aðila sem mest samskipti hafa verið við á líðandi ári.

Nokkrar umræður hafa verið af og til um búninga fyrir St. Georgsgildin. Gömlu bláu peysurnar hafa lengi verið ófáanlegar. Kópavogsgildið keypti sína búninga hjá Tanna, en það eru flíspeysur og pólóbolir. Hveragerðisgildið gerði slíkt hið sama skömmu síðar og fékk leyfi til að nýta sér merkið.

Á landsmóti skáta á Hömrum 2009 stóð landsgildismeistari í samvinnu við Kvist fyrir kynningu á starfi gildanna.

Landsgildið var stofnað 2. júní 1963 og verður því 50 ára 2013.