Krstinn J. Sigurðsson

Krstinn J. Sigurðsson

Kristinn Jóhann Sigurðsson skátafélagi okkar lést 9. febrúar eftir stutt veikindi. Kristinn fæddist í Keflavík 22. júlí 1928 og var því 84 ára þegar hann lést.

Hann var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, lauk BA prófi í ensku og dönsku auk þess sem han lauk prófi í kennslu- og uppeldisfræðum. Hann kenndi í Keflavík í tvö ár en starfaði síðan sem flugumferðarstjóri alla tíð.
Kristinn giftist árið 1955 Heddu Louise Gandil og hófu þau búskap í Keflavík þar til þau reistu hús við Svalbarð 8 hér í bæ. Þau eignuðust þrjá syni, Hjálmar, Helga Gunnar og Jóhann Örn en áður hafði Kristinn eignast Sigurð. Hedda Louise lést árið 1974.
Árið 1982 giftist hann eftirlifandi eiginkonu sinni Eddu Magndísi Halldórsdóttur, núverandi varagildismeistara okkar og fögnuðu þau því 30 ára brúðkaupsafmæli á síðasta ári.

Fyrir tæpum þremur árum fékk Kristinn áfall og hamlaði það honum m.a. tal. Hann dvaldi á hjúkrunarheimili við góðan aðbúnað og stuðning fjölskyldunnar.

Kristinn gerðist ungur skáti í Keflavík en gekk svo til liðs við St. Georgsgildið í Hafnarfirði þar sem hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var ritari stjórnar frá 1965 til 1976 og gildismeistari var hann árin 1976-1981 auk þess að vera öflugur félagi í skálahópnum. Hann sat í Landsgildisstjórn 1967-1969 og aftur sem erlendur bréfritari 1983-1985.

Kristinn var tryggur félagi og dagfarsprúður og það er mikil eftirsjá af honum.
Þökkum við Kristni gott samstarf og drengskap og vottum Eddu og fjölskyldu hans allri samúð okkar. Útför Kristins er frá Hafnarfjarðarkirkju í dag.

Megi minning góðs skáta lifa.