fæddur 25. apríl 1931 – látinn 13. maí 2015

Hörður Zóphaníass.

Hörður Zóphaníasson

Heiðursfélagi okkar, Hörður Zóphaníasson er farinn heim. Hann lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar 13. maí sl., 84 ára gamall. Að lýsa Herði er kannski ekki auðvelt en mest áberandi var að hann var sannkallað félagsmálatröll. Hann var virkur svo víða, enda hafði hann mikla réttlætiskennd og vildi með verkum sínum leggja hönd á plóg við að gera heiminn betri. Við skátar nutum svo sannarlega verka hans og var einmitt félagsforingi Hraunbúa þegar ég hóf mitt skátastarf. Hörður naut ávallt mikillar virðingar enda fórst honum öll stjórnun vel úr hendi, hann þurfti nær aldrei að brýna röddina og aldrei sá ég hann skipta skapi. Hann var þó fylginn sér og duglegur að koma hlutum í verk.

Ungu skátarnir þekktu enn betur upphafsstafi hans, HZ, enda blöstu þeir við undir fjölmörgum skátasöngvum, ekki síst ódauðlegum Vormótssöngvum. Í textum Harðar blasti við skátarómantíkin en glettnin var sjaldan langt undan. Textar Harðar eru dýrgripir sem meitlaðir eru í spjöld sögunnar.

Það var alltaf gott að leita til Harðar. Hann var ávallt viðbúinn til aðstoðar á hvern hátt sem það var. Ég man að ég þurfti oft að leita til Harðar. Þegar sami sími var heima hjá skólastjóranum og í skólanum. Þegar Hörður átti ekki bíl og fór gangandi á milli vinnu og heimilis. En það var í þá daga. Það var ekki verra að koma við hjá þeim Ásthildi á Tjarnarbrautinni, þá nærðist bæði magi og sál. Í minningunni eru þau heiðurshjón eitt. Þegar maður kom með segulbandsspólu með vinsælu dægurlagi til Harðar um miðjan dag, hringdi hann upp úr kvöldmat og sagði að sækja mætti textann við Vormótssönginn. Þá var Ásthildur búin að vélrita og jafnvel fjölfalda. Ekki síst var samheldni þeirra áberandi í starfi eldri skáta í Gildinu, þegar þau voru í forystu. Í starfi eldri skáta var Hörður gríðarlega öflugur, sem liðsmaður, gildismeistari og ekki síst sem landsgildismeistari.

Fyrir hönd gildisskáta vil ég þakka allt þetta starf. Ég kveð góðan skátavin og við Kristjana vottum Ásthildi og allri stórfjölskyldunni samúð okkar.

Guðni Gíslason gildismeistari.