Það var fallegt veður laugardaginn 12. mars þegar 32 félagar komu saman í Náttúrufræðistofnun Íslands við Urriðaholt. Guðbjörg gildismeistari setti fundinn og við sungum Tendraðu lítið skátaljós. Erling Ólafsson skordýrafræðingur bauð okkur velkomin og leiddi um húsakynnin. Fengum við m.a. að sjá í þurrsýna- og votsýna herbergin þar sem ýmislegt er geymt. Ekki fengum við þó að sjá geirfuglinn þar sem hann er í fágætaherbergi og vel gætt. Í lokin var sest niður og spjallað yfir kaffi og kleinum Sungum Út um mela og móa. Í tilefni dagsins höfðum við fengið  Hörð Zóphaníasson til að setja sama brag og fer hann hér á eftir. Erling tók á móti kveðjunni og sagði að hún yrði sett upp á góðum stað. Kærar þakkir Hörður.

Til Náttúrufræðistofnunar á Urriðaholti, 12. mars 2011,

með þökk fyrir fræðslu og gott veganesti.

Af grunni er risið fallegt fræðasetur,
fróðleik margan hefur það að geyma.
Fróðleiksþyrsta skáta glatt það getur,
með gripum merkum, sem þar eiga heima.
Hér er gott að koma, skynja og skoða,
skilning vekur forvitinna gesta.
Hrekur burtu leti, deyfð og doða,
djúpa ást á náttúrunni festa.
Hér skal ávallt bjart og vítt til veggja,
á verði standi landvættir með sóma.
Heilladísir einum rómi eggja,
að allt hér dafni og standi í fullum blóma.
Hérna margur þekking þiggi feginn,
en þjóðar menning lýsi fram á veginn.
HZ

St. Georgsgildið í Hafnarfirði