Glæsilegt kaffihlaðborðið

Glæsilegt kaffihlaðborðið

Heimsókn gildisins til Kópavogsgildisins í kvöld í Bakka, skátaheimili Kópa norðan við Kópavogslækinn, var virkilega ánægjuleg. Greinilegt var að töluvert var í lagt við undirbúning sem skilaði sér í mjög ánægjulegum fundi. Agnes Þorvaldsdóttir, varagildismeistari tók á móti okkur og setti fundinn og bar kveðju Bjarkar gildismeistara sem var forfölluð vegna veikinda. Guðni hafði tekið gítarinn með úr Firðinum og spilaði undir í fyrsta lagi en þegar Hreiðar mætti var honum snarlega réttur gítarinn. Gafst það vel og var hann enn tekinn fram undir lokin þegar m.a. Kópavogsbragurinn var sunginn.

"bingóspjöldin" fyllt út

„bingóspjöldin“ fyllt út

Farið var í skemmtilegan kynningarleik, bingó sem byggðist á því að finna fólki í hópnum sem uppfyllti skilyrði sem rituð voru í reiti á blaði og markmiðið var að fá kvittun í alla reitina. Tókst það  og allir höfðu gaman að og vissu nú allir hver hafði gengið á Hvannadalshnúk, hver hafði hlaupið maraþon og hver hafði t.d. verið ylfingur. 7 heppnir þátttakendur fengu vinninga, glæsilegt handverk Elínar Richards.

Agnes færir Áslaugu vinning

Agnes færir Áslaugu vinning

Gunnar Marel Hinriksson frá Héraðsskjalasafni Kópavogs flutti skemmtilegt erindi um sögu Kópavogs og var að því gerður góður rómur.

Í lokin buðu gestgjafarnir upp á dýrindis kaffihlaðborð sem enginn lét ósnert og eftir nokkra söngva var slitið formlega með bræðralagssöngnum en fólk var lengi að tínast heim enda um nóg að spjalla.