Ég kann alltaf vel við þegar fólk er með uppbrettar ermar. Ekki kannski mjög formlegt en einmitt þess vegna. Það sýnir að fólk ætlar að takast á við eitthvað þarflegt.

Nú þegar hinu formlega gildisstarfi fer að ljúka taka önnur verkefni við. Aðalfundir hafa verið haldnir og nýjar stjórnir myndaðar. Mörg gildi fara í ferðir yfir sumartímann, önnur munu án efa leggja skátafélögunum í heimabyggð lið þegar hinir ungu skátar fara að búa sig á landsmótið. Á sumrin tekur lífið á sig aðra mynd, við förum í ferðalög, hittum fleira fólk, hvílum okkur á hversdagslífinu.

Í vetur ræddum við gildisskátar saman um nauðsyn þess að efla gildisstarfið þó vissulega sé það kröftugt víða. En í heildina erum við of fá. Skátastarfið í landinu þarf að efla til muna. Og nú er lag því umfjöllun um skátastarf mun aukast verulega síðari hluta þessa árs.

Hvernig væri að grípa blað og blýant og punkta hjá sér nöfn gamalla skáta og aðra sem væri ástæða til að laða inn í gildisstarf ? Það gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hefjast handa. Síðan væri hægt að bera saman lista þegar fer að líða að formlegu gildisstarfi á ný. Bjóða á fundi, blása til kynningarfunda, skrifa í bæjarblöðin, fjölga í gildum, stofna ný gildi allt eftir aðstæðum á hverjum stað.

Og munið….. brettið upp ermar.

Hrefna Hjálmarsdóttir landsgildismeistari