Í gær fagnaði St. Georgsgildið í Hafnarfirði 50 ára afmæli sínu! Þann skugga bar á afmælið að í morgun þegar komið var í skálann blasti við skelfileg sjón, brotist hafði verið inn í skálann, 4 rúður brotnar, dóti hent út, ískáp, örbylgjuofni, húsgögnum og fleiru velt um koll, myndir á veggjum brotnar og matur út um öll gólf.

Lögreglan kom á staðinn og rannsökuðu vettvang en slitrur úr fatnaði og blóð fannst á glerbrotum þar sem farið var inn. Ekki virðist neinu hafa verið stolið en ömurlegt er að lenda í svona – ekki síst á þessum tímamótum. Leikskólabörnin urðu frá að hverfa í morgun og skálanefndin neglir fyrir glugga og tekið verður til í dag, en skipuleg vorhreingerning er í skálanum í dag.

Til hamingju með afmælið!

Í sögu gildisins segir: Miðvikudaginn 22. maí 1963 var St. Georgsgildið í Hafnarfirði stofnað. Þá komu eldri skátar búsettir í Hafnarfirði saman í Hraunbyrgi, félagsheimili Hraunbúa. Tilgangur fundarins var að stofna St. Georgsgildi, samtök eldri skáta í Hafnarfirði. Tveimur kunnu skátaforingjum í Reykjavík hafði verið boðið á fundinn. Það voru þeir Hans Jörgenson skólastjóri og Frank Michelsen úrsmiður. Hans hafði framsögu á fundinum og gerði grein fyrir starfsgrundvelli St. Georgsskáta. Þegar hann hafði lokið máli sínu, var samþykkt að stofna St. Georgsgildið í Hafnarfirði. Síðan fóru allir fundarmenn með heiti St. Georgsskáta og rituðu nöfn sín í fundargerðarbók því til staðfestingar. Stofnfélagar voru 41.

Afmælinu verður fagnað með afmælisfagnaði í september.