Farið verður með Friðarljósið í kirkjur bæjarins á aðventunni eins og undanfarin ár. Friðarljósið, ljós friðar og vináttu, frelsis og sjálfstæðis er gjöf. Friðarljósið er tendrað af ljósi sem ætíð logar í Fæðingarhellinum í Betlehem og hefur lifað frá þeim tíma sem Jesú fæddist. Boðskapur þess er: Friður á jörðu. Það er nú geymt hjá nunnunum í Karmelklaustrinu hér í bæ, en áður var það í varðveislu hjá kaþólska söfniðinum í Jósefskirkju og er þeim þakkað kærlega fyrir það. Friðarljósið verður afhent á fimmtudagskvöld til fulltrúa Bandalags íslenskra skáta og St. Georgsgildanna við athöfn í Skátalundi en þaðan fer það í dreifingu um allt land. Hér í bæ verður farið í kirkjurnar sem hér segir: Á sunnudag í Víðistaðakirkju kl. 11 og í Fríkirkjuna kl. 13 og sunnudaginn 7. desember í Hafnarfjarðarkirkju kl. 11 og í Ástjarnarkirkju kl. 20. Einnig verður farið með ljósið í grunnskóla bæjarins. Þeir sem áhuga hafa á því að nálgast loga frá ljósinu geta komið í skátaheimilið Hraunbyrgi við Hjallabraut, en hafi samband áður í síma 5650900. Upplýsingar um Friðarljósið er að finna á heimasíðu Friðarlogans www.skatar.is