Kæru gildisfélagar.

Það er mér mikil ánægja að leggja mitt af mörkum til að kynna bókina “Skátafélag – mikilvægt afl í samfélagi”.  Höfundar bókarinnar, hjónin Anna Kristjánsdóttir og Arnlaugur Guðmundsson, hafa fylgst með skátastarfi frá unga aldri og þekkja vel til flestra  þátta þess.

Eflaust geta margir gildisfélagar tekið undir með þeim, að finna til þakklætis fyrir ómældar ánægjustundir í skátastarfi um áratuga skeið.

Eins og fram kemur í kynningarbæklingi er bókin skrifuð fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem tekið hafa þátt í skátastarfi en ekki síður fyrir þá sem ekki hafa verið skátar. Áherslan er ekki einungis á skátastarfið sem slíkt, heldur einnig á samfélagslegt hlutverk skátastarfsins. Einmitt þess vegna finnst mér hún sérstaklega áhugaverð fyrir skáta, sem hugsanlega fá nýja og dýpri sýn á skátastarfið við lesturinn. Margt sem við lærðum á okkar ungu skátaárum tókum sem sjálfsögðum hlutum á sínum tíma en geta vakið forvitni og áhuga okkar sem hugsandi fullorðins fólks. Það er vissulega áhugavert að skoða stöðu skátastarfs í samfélaginu á mismunandi tímum.

Skátagildin á Íslandi stuðla að því að efla skátafélögin í sinni heimabyggð ýmist fjárhagslega eða félagslega. Við vitum öll að skátastarf gengur oft í bylgjum og þess vegna er nauðsynlegt að hlúa að skátafélögunum sem “náttúruperlum”.

Ég er þess fullviss að bókin á eftir að vekja eftirtekt og umræður í íslensku samfélagi. Við gildisfélagar getum stuðlað að því með því að eignast bókina, gefa hana góðum vinum, og ræða um hana. Ég hlakka  til að lesa bókina  um veturnætur.

Hrefna Hjálmarsdóttir landsgildismeistari

Kynningarbækling má hlaða niður hér