Fædd 3. maí 1927 – látin 23. júlí 2015.

Rannveig Ólafsdóttir

Það er skammt stórra högga á milli í röðum gildisfélaga í Hafnarfjarðargildinu. Rannveig Ólafsdóttir er farin heim. Hún lést á líknardeild LSH að kvöldi föstudagsins 23. júli s.l. eftir erfið en skammvinn veikindi.

Rannveig var fædd í Hafnarfirði og uppalin að Hverfisgötu 23. Hún starfaði við fyrirtæki föður síns, Verslun Ólafs H. Jónssonar er stóð á horni Strandgötu og Reykjavíkurvegar, fram til þess að hún byrjaði búskap með eiginmanni sínum Guðjóni Erni Kristjánssyni í kjallaranum í húsi foreldra sinna við Hverfisgötu. Þaðan fluttu þau með tvö börn eftir tæp 4 ár er stefnan var tekin til Reykjavíkur og þar hafa þau átt heimili síðan. Rannveig og Guðjón eignuðust fimm börn.

Rannveig var glæsileg kona, einstaklega lífsglöð og félagslynd. Hún var bóngóð og gjafmild og þeim sem áttu við veikindi eða erfiðleika að stríða sýndi hún mikla umhyggju. Hún reyndi að njóta þess er lífið bauð upp á allt til þess að kraftar þrutu.

Rannveig hafði alla tíð sterkar taugar til Hafnarfjarðar og var einn af stofnfélögum St. Georgsgildisins í Hafnarfirði, góður og virkur gildisfélagi allt til hins síðasta. Fljótlega eftir stofnun gildisins hófst vinna við byggingu skálans við Hvaleyrarvatn. Gildiskonur söfnuðu þá fyrir eldhúsinnréttingu o.fl. með því að hittast einu sinni í mánuði, frá september til maí ár hvert, með handavinnu og halda basar. Þetta varð upphaf saumaklúbbs sem nú hefur staðið í u.þ.b. 50 ár og taldi þegar best lét vel á þriðja tug félaga. Ég kom í saumaklúbbinn 1980. Á síðastliðnum fimm árum urðum við góðar vinkonur. Vinátta hennar var mér mikils virði og fyrir það vil ég nú þakka.

Fyrir hönd gildisskáta í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði vil ég þakka Rannveigu góða samveru og samstarf og flyt Guðjóni Erni og fjölskyldu samúðarkveðjur.

Edda Magndís Halldórsdóttir varagildismeistari