Gengið upp austurhluta lóðarinnar

Gengið upp austurhluta lóðarinnar.

Tuttugu stiga hiti og fallegt veður. Hvar er þá fallegra að vera en í og við Skátalund? Það fór vel um þá gildisfélaga sem mættu á þennan „hitting“ þar sem kynntur var nýr leigusamningur við Hafnarfjarðarbæ  um leigu á skálanum á skólatíma fyrir leikskólann Hlíðarenda. Einnig var kynnt nýtt skipulag og lóðarsamningur við Hafnarfjarðarbæ sem þinglýstur var í síðustu viku, 70 þús. fermetra lóð sem nú er til þinglýstur leigusamningur fyrir til 30 ára.

Eftir að hafa sungið nokkur lög eftir Tryggva Þorsteinssonar í tilefni af endurútgáfu söngbókar hans héldu flestir í göngu um lóðin á meðan hinir sötruðu kaffi og bitu í kökur. Gengið var frá skálanum niður að vatni og að austurmörkum lóðarinnar við vatnið. Þaðan var gengið upp með lóðarmörkunum, upp í lúpínuna og hún troðin  þar til komið var upp að hornstaur á austasta hluta lóðarinnar. Áfram var lúpínan troðin, nú utan girðingar og yfir að slóðanum að skálanum. Þaðan var stígur genginn, sunnan við lóðina og að tveimur syðstu hornstaurunum. Fúi var kominn í einn staurinn og hafði myndast yfir 10 cm hola ofan í staurinn og þar hafði vaxið upp sjálfsáður reyniviður. Kannski var hornstaurinn að endurnýja sjálfan sig? Frá suð-vestur horninu var gengið niður með girðingunni og greniveggnum og niður að vatni. Sveppir voru tíndir og fróðleik deilt á milli manna. Áður en haldið var í skálann á ný var komið við í Riddaralundinum og mynd smellt af hópnum. Í skálanum beið rjúkandi kaffi, kökur og kex. Þessum ánægjulega hittingi lauk svo með söng, mest eftir Tryggva við gítarglamur gildismeistara. Nína klippari, gamall skáti úr Keflavík og skátamamma var gestur okkar í kvöld og verður örugglega með okkur aftur. Takk fyrir ánægjulegt kvöld. – GG

  

Í Riddararjóðrinu