fæddur 30. október 1931 – látinn 25. apríl 2015

Jón Bergsson

Jón Bergsson

Enn er skarð rofið í raðir okkar gildisskáta. Jón Bergsson, öflugur gildisfélagi er farinn heim. Jón lést á heimili sínu aðfararnótt laugardagsins 25. apríl. Hafði hann allt til hins síðasta verið virkur félagi og skátastarfið var honum hugleikið. Hann var gildismeistari árin 1985-1987.

Í hvert sinn sem ég hitti hann, vikulega á rótarýfundum eða annars staðar, rétti hann ávallt fram vinstri höndina að skátasið og bar skátamerki í barminum með stolti. Það var ávallt ljúft að hitta þau saman, Jón og Dísu, enda voru þau samrýmd í skátastarfinu. Jón er hluti af barnsminningu minni enda tókst vinskapur með þeim og mínum foreldrum er við fluttumst til Hafnarfjarðar árið 1962.

Fyrir alla þá góðu viðkynningu vil ég þakka og fyrir hönd St. Georgsgildisins í Hafnarfirði og hafnfirskra skáta vil ég þakka honum fyrir hans störf í skátahreyfingunni. Vottum við Kristjana Dísu, Þórdísi Steinunni Sveinsdóttur, konu hans og félaga okkar samúð sem og börnum þeirra og fjölskyldum.

Guðni Gíslason gildismeistari.